Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Upphafin fegurð

221609_10150232403718573_219261628572_8510387_1628786_n[1]

Ittoqqortoormiit eða Staður hinna stóru húsa. Hér í öllu sínu veldi séð í gegnum linsu Tims Vollmer. Myndin er tekin af þyrlupallinum sem er upphaf og endir ferða til þessa ótrúlega magnaða staðar.

 Þegar leiðangursmenn mættu á svæðið var sól og blíða og aldeilis indælisveður þrátt fyrir um 15 stiga frost. Daginn eftir brast á bilaður stormur og snjóskaflar stækkuðu umtalsvert. En það gerði fegurðina bara enn meiri.

tim sleðahundarÁ sundinu mættum við þessum á sunnudagsrúntinum....


Matartími

CIMG1821

Hundarnir bíða í ofvæni eftir að Karl Napatoq ljúki við að skera selinn. Það þarf að fóðra sleðahundana, þeir verða að geta tekið almennilega á því þegar þeir hlaupa með fleiri hundruð kíló í eftirdragi yfir gaddfreðið sundið.

Karl er átján ára og hefur verið veiðimaður í tvö ár eða síðan hann kláraði 10. bekk. Hann veiðir aðallega moskuxa eða sauðnaut, líka seli og hefur einu sinni skotið ísbjörn. Það var reyndar áður en hann gerðist veiðimaður.

CIMG1823Fyrstur sér, fyrstur fær...


Bangsímon

 

tim skinnJamm, það getur verið töff að búa þarna á 70° breiddargráðu. Birnirnir hafa verið að gera bæjarbúum lífið svolítið leitt að undanförnu og það borgar sig ekki að bögga þá.

Þ.e.a.s. þorpsbúana!


Gleði og hamingja

stelpur

Það finnast ekki margir skákstaðir þar sem jafnmikil gleði ræður ríkjum og í grunnskólanum í  Ittoqqortoormiit. Tóm hamingja, heldur betur.


skákkennsla

inga kennir

Ingibjörg Edda kennir að máta, fyrst með drottningu og síðan með tveimur hrókum. Vantaði ekki athyglina en krakkarnir eru súperdugleg að læra og áhugasöm um skákina. Lenda þó í vandræðum með að klára með glans.

Tim Vollmer tók mynd


Töfrar og taflmennska í Itto!

Ittoqqortoormiit í sólinni

Nú er liðin vika frá heimkomu og ég er rétt svo að skríða niður á jörðina eftir þessa ævintýraferð sem gerði svo miklu MIKLU meira en að standa undir væntingum! Því er við hæfi að líta aðeins um öxl ... ég ætla þó aðallega að láta myndirnar tala sínu máli enda segja þær meira en þúsund orð!

Ittoqqortoormiit tók á móti okkur með sól og fögrum fyrirheitum um vikuna framundan. Útsýnið á leiðinni þangað var með ólíkindum fallegt og ég vissi strax að ég myndi ekki leggja frá mér myndavélina alla ferðina. Það átti eftir að standast!

Þrátt fyrir ísskápsleysi (í fyrstu) og svartan ruslapoka í stað vatnssalernis fannst mér Gráa höllin virkilega notaleg enda mjög þægilegt að vera í nágrenni skólans. Fyrsti dagurinn fór í að koma sér fyrir og rölta um bæinn í sólinni, dásamlegt...og um kvöldið héldum við Tim út í myrkrið með myndavélarnar (ekki í síðasta sinn). Spangólið í hundunum myndaði magnaða sinfóníu sem gerði útiveru á kvöldin einstaklega eftirminnilega, auk þess sem hugurinn var ósjálfrátt stilltur inn á að skima eftir ísbjörnum. Alveg einstök tilfinning... ;) hundur

Ég er almennt ekki mikið fyrir að mynda dýr en þessa viku tók ég eflaust þúsund myndir af hundum... þvílík dýr, þessir sleðahundar! Þeir eru vissulega grimmir og mér varð nóg um þegar einn gerðist svo vinalegur að hann sleikti mig í framan, en þeir eru mun spakari en ég bjóst við og sumir voru alveg til í að pósa aðeins fyrir okkur myndavélanördin, hahaha.

_mg_8941.jpg

Þessi hérna vinstra megin var einn af hundunum sem fóru með okkur Tim og Ingu til Kap Topin en eitthvað varð honum uppsigað við félaga sinn... hjörtun í okkur snarminnkuðu við að fylgjast með grimmilegum slagnum en stuttu síðar drógu þeir okkur samt um ísinn eins og herforingjar á meðan við dáðumst að ótrúlegu útsýninu á hjarninu. Þvílík fjallasýn!

Ísbirnir voru ofarlega á óskalista ferðalanga þessa viku og fengum við bæði að kynnast þeim lifandi og liðnum. Skiptar skoðanir voru á ágæti ísbjörns í karrý en það var óneitanlega gaman að smakka. Tveir bangsar, birna með hún, voru svo ljúfir að láta sjá sig í nágrenni þorpsins og hef ég sjaldan verið eins spennt eins og þegar snillingurinn Jaerus brunaði með okkur á vélsleðanum til að ná í "skottið" á þeim mæðginum.

_mg_9238.jpg Tilgangur ferðarinnar var að sjálfsögðu að heiðra skákgyðjuna og gera okkar besta til að laða fram bros á vörum barnanna í Itto, sem ekki hafa það eins gott og við hér heima. Það tókst svo sannarlega og í ljós kom að það er hægt að tefla hvar sem er...._mg_9387.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Fólkið og ekki síst krakkarnir í Itto eru snillingar upp til hópa og á þessum stutta tíma eignuðumst við vini sem okkur þykir vænt um. Guðrún og Emilia voru duglegar að elta okkur um bæinn og hjálpa til þegar þær gátu... og undir lok vikunnar voru þær farnar að skrifa í snjóinn að skák væri skemmtileg. Mission accomplished! :D Þetta eru þær stöllur:

_mg_9096.jpg

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að koma með í þessa ógleymanlegu ferð. Markmiðið var virðingarvert, árangurinn gefandi, dvölin skemmtileg og ferðafélagarnir vægast sagt frábærir!

Ég mun skrifa grein um ferðina í næsta tölublað Mannlífs, sem kemur út undir lok maímánaðar, og mun setja slatta af myndum á flickr-síðuna mína (flickr.com/_rainbowgirl).

Að lokum þakka ég KÆRLEGA fyrir mig, vonandi verður  hægt að halda þessu frábæra starfi Hróksins á Grænlandi gangandi sem allra allra lengst.

 

Kærar kveðjur, Hrund Þórsdóttir

_mg_8438.jpg


Aðeins að líta um öxl!

 

Þegar litið er tilbaka eftir ferðina þá er ekki annað hægt að segja en að hún hafi tekist með eindæmum vel. Þessi tæplega fimmhundruð manna bær tók fallega á móti skáktrúboðunum fjórum, með sól og blíðu. En veðraskiptin eru snögg þarna á 70° breiddargráðu því næsta dag var stormur og þvílík læti.

En sett voru upp þrjú stórmót, þó hæst bæri tvöfalt mót á mánudeginum sl þar sem allir þátttakendur fengu páskaegg frá Bónus. Átján ára og eldri tókust á í sérmóti en þau yngri, sem voru mun fjölmennari, rusluðu upp sex umferðum og það var eins og þau hefðu gert þetta hundrað sinnum. Hafa reyndar keppt á mótum um páskana undanfarin fimm ár, lítið meira en það.

Inga tefldi fjöltefli við tuttugu og fimm í einu, samtals um fjörutíu krakka og fullorðna og leyfði fimm jafntefli.  Stóð sig glæsilega enda í fyrsta sinn sem hún teflir fjöltefli og mótstaðan var mismikil en þau eldri eru orðin harðsnúin auk þess sem skólameistarinn, Gustav Martin Brandt, ætlaði sér sigur. Hann þurfti þó að lúta í gras.

Hin fimmtán ára gamla Sikkerninnguaq Lorentzen var helsta hjálparhella leiðangursfólks við skákina, sló inn nöfn og úrslit þegar þurfti og var túlkur því ekki kunna öll börnin dönsku. Hún er líka efnilegust stelpnanna og reddaði okkur alveg. Stórvinur okkar Josef Napatoq og frænka hans, Pauline Anike voru okkur heldur betur innanhandar líka en krakkarnir skemmtu sér gríðarlega vel og mætingin var frábær, enda lítið um að vera fyrir þau á þessum ótrúlega afskekkta stað.

Jamm, um níu hundruð km í næsta bæ sem er Kulusuk og engir eru vegirnir. Enda samgöngur eingöngu þyrla og flugvél yfir vetrarmánuðina og vörurnar í kaupfélaginu komu með síðasta skipi frá Danmörku. Það var í ágúst! Íslenskt grænmeti, skyr og annað fæst en það er ekki beint á viðráðanleegu verði svo við erum afar þakklát þeim hjá Sölufélagi garðyrkjumanna fyrir að gefa okkur slatta af grænmeti með í ferðina.

Þó skákin hafi gengið eins og í sögu eru margar upplifanir magnaðar frá þessum magnaða stað, eins og snjósleðaferð með Jaerusi Arqe-Napatoq og börnum hans fimm (af sjö) auk þess sem hann fór með þau hin, Hrund, Tim og Ingu á snjósleða að elta tvo ísbirni. Það hefur verið ótrúlega mikið af bjössum þarna að undanförnu og við hittum tvo franska vísindamenn sem lentu heldur betur í því þegar tveir bangsar ætluðu hreinlega að borða þá í kvöldmat úti á ísnum. Á endanum - þrátt fyrir öll möguleg ráð til að bæla þeim í burtu - þurftu þeir að nota þessi sjö skot sem þeir höfðu meðferðis þegar bangsarnir voru aðeins þrjá til fjóra metra frá kvöldverðinum.

Veisla hjá Hanne Eggert Petersen, kennara og hjálparhellu, þar sem moskuxi eða sauðnaut var á boðstólnum, önnur moskuxaveisla hjá Jaerusi og Nikolinu sem endaði svo á hinum magnaða bar bæjarbúa er eitthvað sem við búum að um ókomin ár og ekki síst mánudagsmaturinn. Ísbjarnarlæri með íslenskum kartöflum og karrýsósu er ekkert slor.

Ef ekki hefði verið fyrir hana Karinu Bernlow hjá Nanu Travel sem er að hluta í eigu Nonna travel á Akureyri, þá hefði verið tæpt með ferðina því hún hefur barist fyrir því að útvega fjármagn sem tókst glæsilega.  Sveitarfélagið Sermersooq og Grænlandssjóður dönsku konungsfjölskyldunnar styrktu Hrókinn til verksins auk þess sem íslensk fyrirtæki gáfu vinninga. Karina vann í því í vetur að fá vinninga frá Grænlandi auk þess að sl sumar kom síðasta skipið með allskyns danskan varning fyrir börnin. Hún er kraftaverkakona hún Karina.

Við erum þess fullviss, eftir þessa upplifun, auk þess sem að sjálfur hef ég séð frá fyrstu páskaferðinni 2007, að þessar heimsóknir eru ótrúlega mikilvægar krökkunum og- svo ég noti orð Karinu - lífsnauðsynlegar. Þau eru afar kát með að Hrókurinn skuli senda leiðangur þarna uppeftir á þessum tíma þegar ekkert er um að vera, auk þess sem skákin eykur samheldni og það geta allir verið með, pínkuponsusmáir sem og stórir.

Ferðir Hróksins, undir forystu Hrafns Jökulssonar, eru nú orðnar um og yfir tuttugu frá 2003. Öll þorp austurstranarinnar (þar sem félagslegar aðstæður barnanna eru ívið slakari en í stærri bæjum vesturstrandarinnar og tölum nú ekki um miðað við Ísland) hafa verið heimsótt og sennilega um 800 skáksett gefin. Hrafn hefur komið af stað svo mögnuðu verkefni að það má bara ekki leggjast af. Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, hefur staðið með leiðangursfólki við allan undirbúning.

Cintamani átti stórleik og styrkti ferðalanga með norðurpólsúlpum og við þökkum bæði þeim og: Bónus, Actavis, Eymundsson, Ís-spor og Flugfélagi Íslands fyrir alla aðstoð.

Arnar Valgeirsson

  

 


Leiðangursfólk komið heim á klakann - af klakanum

Veðrið skartaði sínu allra fegursta þegar ferðalangar trilluðu upp að þyrlupalli upp úr hádeginu. Þær Gudrun og Emilia, tólf ára skákdrottningar auk hálfrar stórfjölkyldunnar hans Jaerusar Napatoq-Arqe fylgdu genginu og þegar allir höfðu knúsast var hoppað upp í þyrluna. Árni frá Nonna travel var fimmti farþegi þyrlunnar sem flogið var af honum Sverri sem  starfar hjá Air Greenland.

Ferðin tókst í alla staði frábærlega og allt gekk upp. Tvo daga þessa vikuna var leiðindastormur og þokkalega kalt, annars fallegtasta veður og ekki mikið meira en mínus tíu gráður!

Þeir fimmtíu krakkar sem komu í skólann nær daglega í páskafríinu sínu voru í banastuði og haldin voru þrjú stórmót, aldursflokkamót auk þess sem Inga tefldi fjöltefli við tæplega 40 manns. Fimm náðu jöfnu en enginn þátttakenda lagði meistarann.

Moskuxaveislurnar urðu tvær, eða kannski þrjár því síðasta kvöldið var pizza hjá þeim Karinu og Martin, hjálparhellum Hróksins og var ein með moskuxakjöti og jalapeno. Ísbjarnarlæri með kartöflum í karrísósu var mánudagsmaturinn.

Við bætum við sögum, af nógu er að taka enda snjósleða-, hundasleðaferðir og ísbirnir efni í heilu bálkana. En aðalatriðið er að krakkarnir voru hamingjusamir yfir skákvikuna, fullorðna fólkið var afar hjálplegt og þakklátt og skáktrúboðarnir í skýjunum yfir vellukkaðri ferð.


Bónusmótið mikla

Bónusmótinu var að ljúka hér í Itto og var mikið stuð í skólanum. Vinningar voru í boði Bónus og Eymundsson og vöktu þeir vægast sagt mikla lukku. Allir voru leystir út með páskaeggjum, enda er páskafríið byrjað hjá krökkunum.

Í eldri flokkinum sigraði Lars Simonsen í dag. Í öðru sæti var Aasa Andersen og Aqqalu Brönlund krækti í þriðja sætið.

Þátttakendur í mótinu voru um 50 talsins og efsta sæti í yngri flokkinum náði Angunnguaq Pike með fullt hús, eða sex vinninga. Í öðru sæti var Leo Brönlund, Jeremias Madsen var í þriðja sæti og Theodor Napatoq í því fjórða. Efst af stelpunum, í fimmta sæti, var Sikkerninnguaq Lorentzen, en hún er algjör snillingur og hefur verið sérleg hjálparhella okkar hér í skólanum.

Næst á dagskrá er ísbjarnaát hjá stórvini okkar Jarusi og fjölskyldu hans.

Kærar kveðjur! :)


Skák, hundar og ísbirnir

Thad gengur illa ad komast i netsamband herna en eg fekk ad kikja vid hja karinu i nanu travel og setja sma inn. Akkurat nuna eru Tim, Hrund og Inga i hundasledaferd med Karli Napatoq, atjan ara veidimanni. I gær forum vid i ævintyralega snjosledaferd med pabba hans og systkinum i otrulega godu vedri. svo godu ad solin bræddi snjoinn yfir isnum og allt var pikkfast sem var verra enda isbjarnarspor tharna rett hja. Vid sluppum tho heilu og holdnu heim en spænkir ævintyramenn skutu tho einn isbjorn i gærkvoldi i sjalfsvorn.

Tim tekur um 600 myndir a dag og skakin gengur vel. Fimmtíu krakkar a motinu a laugardaginn og orugglega fleiri a eftir thvi allir fa tha paskaegg fra bonus og allir vita af thvi.

Annars er yndislegt vedur einn daginn og stormur thann næsta thannig ad vid erum ad verda ymsu von. Thetta er audvitad magnadur stadur og rumlega thad og folkid frabært.

Tvisvar hefur okkur verid bodid i moskuxaveislu og thad er spenningur i lidinu thvi thad er isbjarnarveisla i kvold.

Allt gengur súpervel og tóm hamingja. Verst ad thad gengur ekkert ad setja inn myndir en úr thvi verdur bætt sídar.

Fram til sigurs.

Arnar


Næsta síða »

Leiðangursmenn

,,Við erum ein fjölskylda"
,,Við erum ein fjölskylda"

Fréttir af landnámi skákarinnar og starfi Hróksins og Kalak á Grænlandi.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband