Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Jokiba Napatoq

2259_49613798263_7594_n.jpg

Þessi mynd er tekin um páskana árið 2008 þegar fjórir leiðangursmenn Hróksins og Kalaks voru í leiðangri númer tvö í Ittoqqortoormiit. Róbert Lagerman tefldi fjöltefli við krakkana, sem ekki voru vel að sér í skáklistinni, flest hver. Enda var fyrsta ferðin 2007 og þá kunnu verulega fáir mannganginn. Hún Jokiba Napatoq var afar áhugasöm og var með í öllum viðburðum og þó hún væri aðeins sex ára þá reyndi hún sitt besta. Hún barðist lengi og vel við hann Róbert í fjölteflinu og þó staðan væri, eins og sjá má, nokkru lakari hjá svörtu köllunum, þá bauð Róbert jafntefli sem Jokiba þáði umsvifalaust enda páskaegg í boði fyrir þau sem ekki töpuðu fyrir meistaranum.

295652_136159746557799_1258974613_n.jpg

Jokiba kom með móður sinni, henni Ellen, sem reyndar hefur verið stoð og stytta leiðangursmanna að undanförnu, í skemmtiferð til Reykjavíkur sl sumar. Frændi hennar var með í för og þau kíktu við á skákæfingu hjá Skákakademíu Reykjavíkur einn mánudag í góða veðrinu. Þau frændsystkin áttu nokkuð í land með að halda í við krakkana sem stunduðu grimmt æfingar en fannst mikið til koma og nutu sín alveg í botn.

551441_10151609549368338_64689698_n.jpg

Hér má sjá Jokibu að tafli við afmælisbarn dagsins, laugardaginn 30. mars sl, hann Martin Hammeken. Hann var uppstrílaður að hætti afmælisbarna, og var kallaður upp á svið til að taka við afmælisgjöf frá leiðangursmönnum. Brosið líður seint úr minni. Jokiba neytti allra bragða til að tefla við vini og kunningja milli móta í páskaskákvikunni, en þurfti að finna einhverja sem áttu skákborð og kalla.

Ellen, móðir hennar, sem eins og áður sagði var stoð og stytta skáktrúboðanna og meðal annars mætti í skólann til að smyrja ofan í þá brauð, eins og sjá má hér:

cimg2203.jpg

..tjáði semsagt piltunum að Jokiba ætti ekki skáksett, hún hefði ekki fundið það í búðum þegar hún var á Íslandi sl sumar og ekki væri það nú til í kaupfélaginu í þorpinu. Þó ýmsu ægi nú saman þar, þá eru ekki reglulegar pantanir á dóti því skipið kemur bara á sumrin og þá er búðin fyllt af varningi sem á að duga fram á næsta sumar! Þannig er nú bara það og sumar vörur eru komnar hressilega yfir svokallaðan síðasta söludag, en það er ekki verið að stressa sig yfir því.

Jokiba fékk afhent skáksett eftir stutta æfingu í gistiheimilinu á staðnum, þar sem leiðangursmenn bjuggu við gott atlæti, og fór hún með það alsæl heim. Sat þar að tafli við vini og vinkonur fram á kvöld.

Niðurstaðan er sú að æfingin skapar meistarann. Vegna þess að...

149218_10151606300628338_931544573_n_1196692.jpg

eins og sjá má þá krækti Jokiba sér í sinn fyrsta verðlaunapening fyrir góðan árangur í skák á síðasta mótinu sem haldið var. Fékk hún fullan sundpoka frá Norlandair með ýmsu dóti í fyrir þátttökuna og svo páskaegg og glæsilega medalíu fyrir að komast í verðlaunasæti.

Sjaldan hafa sést stoltari mæðgur en eftir þetta mót.

Stelpan var varla búin að loka á eftir sér útidyrahurðinni heima hjá sér þegar þessi mynd birtist á facebook:

 522417_582667045101620_576448601_n.jpg

 


Glöðu andlitin

392665_10151605195048338_2068102469_n.jpg

Það er einstaklega gefandi að vera innan um svona skemmtilega krakka. Það voru bókstaflega allir glaðir, alltaf. Ef ekki sást bros þá var það vegna þess að þau voru svo niðursokkin í skákina að ekkert annað komst að.

Eins og til dæmis hEr:

216688_161756757317234_121292293_n.jpg

Þeir Gaba og Jerimias voru duglegir að kíkja við á gistiheimilinu hjá leiðangursmönnum og þiggja smá veitingar. Og tefla eina eða tvær skákir. Þeir mættu að sjálfögðu alltaf í skólann þegar skákin átti að fara að byrja. Og það sem var svo skemmtilegt að þeir brostu út í eitt. Alltaf. 

Eins og sjá má hér:

529429_10151605196053338_900562230_n.jpg

Gudrun og Emilie hafa verið bestu vinkonur í mörg ár. Sennilega frá því að þær voru pínkupons. Þær hafa sennilega mætt á alla skákviðburði síðan páskana 2007 þegar fyrsta ferðin var farin.

564495_163846807108229_331553850_n.jpg

Stelpurnar mættu manna fyrstar og hjálpuðu til að setja upp borð og stóla, stilla upp taflmönnum og Emilie sá um að þýða yfir á grænlensku og pikka öll nöfnin í tölvu. Svo setti hún inn úrslitin og paraði fyrir næstu umferð og síðasta mótinu stjórnaði hún nánast upp á sitt einsdæmi. Afhenti svo öllum þátttakendum vinninga sína á Norlandair mótinu. Það var mikið að gera hjá stelpunni þá svo ekki náði hún verðlaunasæti en hún náði þó öðru sæti í yngri flokki á móti númer tvö.  Þessar tvær bera nafnbótina Snillingur, með stóru essi.

545932_163846917108218_319700374_n.jpg

Daniel D. Madsen er bróðir Emilie og sonur húsvarðarins í skólanum, hans Jens Kristian Madsen. Jens og kona hans eiga sex börn og fimm þeirra hafa verið með í skákinni ár eftir ár. Ken er elstur og hann er í framhaldsskóla á vesturströndinni. Systir hans í skóla í Nuuk og sá yngsti stendur varla fram úr hnefa ennþá, en verður með næst. Daniel varð 11 ára þann 2. apríl, daginn sem leiðangursmenn settust á sleðann hjá pabba hans sem skutlaði þeim yfir gaddfreðið Scoresbysundið að Constable Pynt, hinum nokkuð einmanalega alþjóðaflugvelli á ísbjarnarslóðum. Daníel átti stórleik og sigraði á Bónusmótinu í yngri flokki og var aldeilis ekki ósáttur. Hann virðist reyndar aldrei neitt sérlega ósáttur..

604077_162932897199620_1366654188_n.jpg

Þarna til vinstri er hún Laila, en hún er einmitt systir þeirra Emilie og Daniels. Laila er mikill gleðigjafi og sýnir miklar framfarir í skákinni, þó ekki hafi hún náð á pall. Laila er orkubolti og alltaf í góðu skapi. Hér er hún með litla frænda sér við hlið, hann var líka með þeim allra sprækustu.

12356_10151609710048338_1511533019_n.jpg

Hún Cecilie er hér sposk með glænýja skákbók á grænlensku. Öll börnin fengu þessa bók að gjöf sem mun væntanlega hjálpa þeim að ná enn betri árangri. Það var skákkennarinn og eðalmennið hann Siguringi Sigurjónsson sem setti saman bókina og fékk styrk til að láta þýða á grænlensku. Það gerði ung kona sem býr í Kópavogi og var lengi að vinna á alþjóðaflugvellinum Constable Pynt. Verulegur akkurí þessari bók. Þess má geta að Cecilie prýddi forsíðu sunnudagsblaðs Moggans stuttu eftir páskana 2011, svona ljómandi krúttleg við skákborðið. Þá mynd tók Tim Vollmer sem var hirðljósmyndari ferðarinnar fyrir tveimur árum.

485200_10151609548773338_633452823_n.jpg

Þarf nokkuð að segja meira? Á þessu borði var sko aðalstuðið. Hér er unga fólkið í rífandi fíling. Alveg tjúlluðu stuði...

Nei, þarf ekki að segja meira.... Nema kannski það að:

553878_10151609710043338_794690039_n.jpg

Þó að aðalmálið sé að vera með þá er ótrúlega gaman að vinna. Alveg bilað gaman.

Allan Madsen vann tvisvar og var stoltari en allt sem stolt er.

 

 


Leiðangursmenn

Þeir fjórir, skáktrúboðarnir, sem voru svo heppnir að fá að heimsækja hið magnaða Ittoqqortoormiit við Scoresbysund nú um páskana, hafa allir ferðast með Hróknum/Kalak áður vestur um haf.

540109_163846920441551_1686491914_n.jpg

Hrafn Jökulsson er forseti Hróksins og upphafsmaður þess að kynna Grænlendinga fyrir skákgyðjunni. Nú er hafið 11. starfsár Hróksins á Grænlandi en fyrsta ferðin var til Qaqartoq árið 2003 en síðan hafa öll þorpin á austurströndinni verið heimsótt. Hrafn hefur farið ótal ferðir vestur um haf, oftast til Tasiilaq þar sem bækistöðvar hafa verið og þaðan farið til litlu þorpanna í kring.

Í desember sl. fór Hrafn ásamt stórmeistaranum Henrik Danielsen til Nuuk og stendur til, með tíð og tíma, að vinna í útbreiðslu skákarinnar á vesturströndinni. Þó einbeita liðsmenn Hróksins og Kalak sér að þeirri eystri sem stendur, enda þurfa börnin þar á félagslegum áskorunum að halda og upplifa gefandi samveru.

58044_163846810441562_2011353471_n.jpg

Róbert Lagerman, Fide meistari og yfirkennari ferðarinnar. Róbert er varaforseti Hróksins og hokinn af reynslu i skákkennslu barna. Hann á margar Grænlandsferðir að baki og stjórnaði mótum af öryggi en naut aðstoðar Emilie Madsen, þrettán ára skákdrottningar sem lærði mikið af herra Lageraman og getur vafalaust stjórnað stórmótum sjálf í nánustu framtíð.

544642_10151609705358338_730699689_n.jpg

Jón Birgir Einarsson, hinn öflugi liðsmaður. Má titla sem rótara leiðangursins og ekki verra að maðurinn er menntaður sem sálfræðingur sem og félagsfræðingur. Það hjálpar bæði íbúum hins einangraða Ittoqqortoormiit sem og leiðangursmönnum..

Jón hefur endalausa þolinmæði við að leiðbeina yngri kynslóðinni og hoppar í skákstjórn þess á milli. Hér er hann - fremur svalur - á leið yfir á Tóbínhöfða í ísbjarnarleit.

529230_10151605217873338_435733460_n.jpg

Arnar Valgeirsson á að baki um tólf ferðir í skákleiðöngrum á austurströnd Grænlands. Hann hefur verið leiðangursstjóri frá upphafi ferða til Ittoqqortoormiit og þekkir sig orðið nokkuð vel þar á bæ. Arnari fellur ágætlega að leiðbeina börnum sem stíga sín fyrstu skref í skákfræðum, sem og að setja upp mót en meistaradrauma er hann hættur að elta, enda væntanlega fjórði besti skákmaður leiðangursins. Eins og svo margir sem koma til landsins kolféll Arnar fyrir því og uppáhaldsstaður hans er Ittoqqortoormiit eða "staður hinna stóru húsa" við Scoresbysund.

Milli vinnutarna fékk Arnar að fara út og leika sér á sleða.

529407_10151603373418338_1449181041_n.jpg

Já, og svona lítur bærinn út, séð í vestur út frá "miðbænum". Þetta er ægifagur bær. Gott fólk og ótrúlega hressir krakkar.


Leiðangursmenn

,,Við erum ein fjölskylda"
,,Við erum ein fjölskylda"

Fréttir af landnámi skákarinnar og starfi Hróksins og Kalak á Grænlandi.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband