Leita í fréttum mbl.is

Skákmót á skákmót ofan – Illar veðurhorfur

_MG_6090Í dag hefur sendisveit Hróksins hér í Ittoqqortoormiit hvergi látið deigan síga fremur en fyrri daginn. Klukkan tvö í dag var haldið skákmót í grunnskóla þorpsins – veglega styrkt af Glitni – fyrir börn sextán ára og yngri og mættu hátt í fimmtíu.

 Asser Sanimuinaq varð hlutskarpastur en í öðru sæti varð Sikkerninnguaq Lorentzen sem um leið var efst stúlkna. Í þriðja sæti varð Paulus Napatoq – blindi pilturinn sem ekur um allt á hundasleða eins og ekkert sé. Og í fjórða sæti varð Julian Anike.

Öll hlutu þau vegleg verðlaun og má þar nefna forláta bikar fyrir fyrsta sætið, verðlaunapeninga, skáktölvur fyrir fyrsta og annað sætið og páskaegg frá sælgætisgerðinni Góu. Fengu raunar allir þátttakendur páskaegg.


Að móti loknu buðu skólastjórahjónin, þau Peter og Ulla, leiðangursmönnum í mat. Á borðum var ísbjörn, selkjöt, náhvalsspik og náhvalshúð, þurrkuð loðna (amassa) og moskuxakjöt. Þetta var mikill herramannsmatur sem bráðnaði í munni.

Að loknum mat var spjallað við skólastjórahjónin yfir kaffibolla í dálitla stund en síðan urðu Grænlandsfarar að halda aftur upp í skóla. Komið var að öðru móti, að þessu sinni fyrir 12 ára og eldri sem styrkt var myndarlega af Húsasmiðjunni.

Alls mættu um fimmtíu manns. Arne Munk aðstoðarskólastjóri fór með sigur af hólmi en í öðru sæti varð Ikila Brønlund. Í þriðja sæti varð bróðir hans, Aqqalu. Hlutskörpust kvenna varð Ivi Lorentzen en hún er einmitt systir áðurnefndrar Sikkerninnguaq. Sem fyrr voru veitt vegleg verðlaun og má þar nefna páskaegg frá Góu, verðlaunapeninga og bikar fyrir fyrsta sætið, auk skákborðs áritaðs af sjálfum Garrí Kasparov.


Á morgun verður haldið enn eitt skákmótið – og gefst öllum aldurshópum kostur á að taka þátt í því. Fyrirhugað er að halda heim til Íslands degi síðar, það er á miðvikudag, en ekki er víst að það hafist.

Veðurspáin er víst ekki með betra móti fyrir miðvikudaginn en gert er ráð fyrir 20 metrum á sekúndu, snjókomu og skafrenningi. Miðað við allan snjóinn hér við Scoresbysund má ætla að verulega blint verði í slíku veðri en leiðangursmenn krossa bara fingur. Kannski gengur spáin ekki eftir en gangi hún eftir – nú, þá verður bara að bíða fram á laugardag.

Þá er búist við björtu veðri og brakandi frosti. Í slíku veðri er ekkert mál að fljúga. En ef allt klikkar þá er það nú kannski ekkert svo slæmt. Það er jú margt verra en að vera á Grænlandi.


Kærar kveðjur frá hjara veraldar,
Þórður


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nú gott að heyra að allt gangi vel ! Þó maturinn hafi nú ekki hljómað neitt sérlega góður.

Gangi ykkur allt í haginn og góða ferð heim.

Allir í Vin

PS Arnar ! Við "stólum" á þig til vinnu þriðjudaginn 25.mars !!!

bjorg (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 15:30

2 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Gangi ykkur vel á eyjunni okkar...

Hlynur Jón Michelsen, 19.3.2008 kl. 02:26

3 identicon

Sælir, var að tala við veðurstofuna, þetta lítur nú ekki vel út,,,þeir spá því að á föstud verði komið flugveður aftur, svo þið kannski náið fyrir matarboðið?

kv sb

Sigrún (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Leiðangursmenn

,,Við erum ein fjölskylda"
,,Við erum ein fjölskylda"

Fréttir af landnámi skákarinnar og starfi Hróksins og Kalak á Grænlandi.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband