Leita í fréttum mbl.is

Mikill fögnuður

Sendinefnd Hróksins hér í Ittoqqortoormiit hefur hvergi slegið slöku við. Á mánudaginn voru haldin tvö skákmót eins og áður hefur verið greint frá. Í fyrradag var ekki heldur setið auðum höndum og voru leiðangursmenn með opið hús í grunnskólanum frá klukkan tvö. Klukkan þrjú tefldi Róbert Harðarson með bundið fyrir augu við Paulus Napatoq sem náði framan af að verjast sóknum Róberts. Að lokum fór þó svo að Paulus tapaði skákinni en það var líka eina skákin sem hann tapaði þennan dag; klukkan fimm var haldið fjölsótt skákmót þar sem hann stóð uppi sem sigurvegari.

Þetta skákmót var haldið í skólanum eins og fyrri mót og var veglega styrkt af Klæðningu, sem og Glitni, Borgarleikhúsinu, Góu og Húsasmiðjunni sem gáfu ýmsa vinninga. Mótið var ætlað öllum aldurshópum og mættu ríflega 100 manns en þátttakendur voru hátt í 70 talsins. Knud Eliassen, formaður skákfélagsins í Ittoqqortoormiit – sem heitir einmitt Tårnet eða Hrókurinn – aðstoðaði við alla framkvæmd mótsins en hann hefur verið ómetanlegur í skákstarfi Hróksins hér í þorpinu.

Eins og fyrr segir varð Paulus Napatoq efstur á mótinu en það má teljast góður árangur hjá þessum blinda pilti. Í verðlaun fékk hann bikar, verðlaunapening, skáktölvu og páskaegg frá Góu. Í öðru sæti varð Lars Simonsen og í því þriðja Aqqalu Brønlund. Hlutu þeir hvor um sig verðlaunapening, skáksett og páskaegg. Af kvenkyns þátttakendum fékk Sikkerninnguaq Lorentzen flesta vinninga en þess má geta að hún varð í öðru sæti á barnaskákmótinu sem haldið var í fyrradag. Í verðlaun fékk hún páskaegg og eðalskáksett. Þegar úrslit voru tilkynnt fögnuðu allir viðstaddir gríðarlega. Og að sama skapi var vel fagnað þegar Knud Eliassen var vígður til tólfta heiðursfélaga Hróksins.

Mikill fögnuður var raunar mjög einkennandi fyrir mótið og mátti sjá gleðina skína úr augum keppenda og þá sérstaklega barnanna en þau voru í talsverðum meirihluta. Þau þekkja orðið alla leiðangursmenn með nafni og sjái þau einhvern þeirra á vappi um þorpið koma þau umsvifalaust aðvífandi og heilsa honum með handabandi. Eitt þykir þeim mjög fyndið en það er að nafn Arnars leiðangursstjóra er skrifað alveg eins og orðið kona á grænlensku, það er arnar.

Gaman að því. Og gott ef það er ekki bara gaman líka að vera veðurtepptur hér í Ittoqqortoormiit en leiðangursmenn komust ekki heim í fyrradag eins og upphaflega var ætlunin. Þá var slæmt veður framan af og seint um kvöldið skall á ofsarok með snjókomu og skafrenningi. En leiðangursmenn létu ekkert stöðva sig og um morguninn héldu þeir á fund sveitarstjórnar sem þeir höfðu verið boðaðir á klukkan tíu. Í ráðhúsinu komust þeir að því að fundurinn hefði fallið niður vegna veðursins. Otto Christensen, fjármálastjóri sveitarfélagsins, var þó í ráðhúsinu og ræddi við leiðangursmenn í nokkra stund. Tók hann við forláta skáksetti fyrir hönd sveitarfélagsins en leysti gestina einnig út með góðum gjöfum.

Má segja að viðræðurnar við Otto hafi verið lokahnykkurinn í störfum leiðangursmanna að þessu sinni en síðar meir mun Hrókurinn vitaskuld senda hingað sendinefnd að nýju. Nú er þess hins vegar beðið að unnt verði að fljúga heim en það er ekki hægt í dag enda leiðindaveður.

Hlýjar kveðjur úr hríðarbyl við Scoresbysund,

Þórður


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Leiðangursmenn

,,Við erum ein fjölskylda"
,,Við erum ein fjölskylda"

Fréttir af landnámi skákarinnar og starfi Hróksins og Kalak á Grænlandi.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband