Leita í fréttum mbl.is

Aðeins að líta um öxl!

 

Þegar litið er tilbaka eftir ferðina þá er ekki annað hægt að segja en að hún hafi tekist með eindæmum vel. Þessi tæplega fimmhundruð manna bær tók fallega á móti skáktrúboðunum fjórum, með sól og blíðu. En veðraskiptin eru snögg þarna á 70° breiddargráðu því næsta dag var stormur og þvílík læti.

En sett voru upp þrjú stórmót, þó hæst bæri tvöfalt mót á mánudeginum sl þar sem allir þátttakendur fengu páskaegg frá Bónus. Átján ára og eldri tókust á í sérmóti en þau yngri, sem voru mun fjölmennari, rusluðu upp sex umferðum og það var eins og þau hefðu gert þetta hundrað sinnum. Hafa reyndar keppt á mótum um páskana undanfarin fimm ár, lítið meira en það.

Inga tefldi fjöltefli við tuttugu og fimm í einu, samtals um fjörutíu krakka og fullorðna og leyfði fimm jafntefli.  Stóð sig glæsilega enda í fyrsta sinn sem hún teflir fjöltefli og mótstaðan var mismikil en þau eldri eru orðin harðsnúin auk þess sem skólameistarinn, Gustav Martin Brandt, ætlaði sér sigur. Hann þurfti þó að lúta í gras.

Hin fimmtán ára gamla Sikkerninnguaq Lorentzen var helsta hjálparhella leiðangursfólks við skákina, sló inn nöfn og úrslit þegar þurfti og var túlkur því ekki kunna öll börnin dönsku. Hún er líka efnilegust stelpnanna og reddaði okkur alveg. Stórvinur okkar Josef Napatoq og frænka hans, Pauline Anike voru okkur heldur betur innanhandar líka en krakkarnir skemmtu sér gríðarlega vel og mætingin var frábær, enda lítið um að vera fyrir þau á þessum ótrúlega afskekkta stað.

Jamm, um níu hundruð km í næsta bæ sem er Kulusuk og engir eru vegirnir. Enda samgöngur eingöngu þyrla og flugvél yfir vetrarmánuðina og vörurnar í kaupfélaginu komu með síðasta skipi frá Danmörku. Það var í ágúst! Íslenskt grænmeti, skyr og annað fæst en það er ekki beint á viðráðanleegu verði svo við erum afar þakklát þeim hjá Sölufélagi garðyrkjumanna fyrir að gefa okkur slatta af grænmeti með í ferðina.

Þó skákin hafi gengið eins og í sögu eru margar upplifanir magnaðar frá þessum magnaða stað, eins og snjósleðaferð með Jaerusi Arqe-Napatoq og börnum hans fimm (af sjö) auk þess sem hann fór með þau hin, Hrund, Tim og Ingu á snjósleða að elta tvo ísbirni. Það hefur verið ótrúlega mikið af bjössum þarna að undanförnu og við hittum tvo franska vísindamenn sem lentu heldur betur í því þegar tveir bangsar ætluðu hreinlega að borða þá í kvöldmat úti á ísnum. Á endanum - þrátt fyrir öll möguleg ráð til að bæla þeim í burtu - þurftu þeir að nota þessi sjö skot sem þeir höfðu meðferðis þegar bangsarnir voru aðeins þrjá til fjóra metra frá kvöldverðinum.

Veisla hjá Hanne Eggert Petersen, kennara og hjálparhellu, þar sem moskuxi eða sauðnaut var á boðstólnum, önnur moskuxaveisla hjá Jaerusi og Nikolinu sem endaði svo á hinum magnaða bar bæjarbúa er eitthvað sem við búum að um ókomin ár og ekki síst mánudagsmaturinn. Ísbjarnarlæri með íslenskum kartöflum og karrýsósu er ekkert slor.

Ef ekki hefði verið fyrir hana Karinu Bernlow hjá Nanu Travel sem er að hluta í eigu Nonna travel á Akureyri, þá hefði verið tæpt með ferðina því hún hefur barist fyrir því að útvega fjármagn sem tókst glæsilega.  Sveitarfélagið Sermersooq og Grænlandssjóður dönsku konungsfjölskyldunnar styrktu Hrókinn til verksins auk þess sem íslensk fyrirtæki gáfu vinninga. Karina vann í því í vetur að fá vinninga frá Grænlandi auk þess að sl sumar kom síðasta skipið með allskyns danskan varning fyrir börnin. Hún er kraftaverkakona hún Karina.

Við erum þess fullviss, eftir þessa upplifun, auk þess sem að sjálfur hef ég séð frá fyrstu páskaferðinni 2007, að þessar heimsóknir eru ótrúlega mikilvægar krökkunum og- svo ég noti orð Karinu - lífsnauðsynlegar. Þau eru afar kát með að Hrókurinn skuli senda leiðangur þarna uppeftir á þessum tíma þegar ekkert er um að vera, auk þess sem skákin eykur samheldni og það geta allir verið með, pínkuponsusmáir sem og stórir.

Ferðir Hróksins, undir forystu Hrafns Jökulssonar, eru nú orðnar um og yfir tuttugu frá 2003. Öll þorp austurstranarinnar (þar sem félagslegar aðstæður barnanna eru ívið slakari en í stærri bæjum vesturstrandarinnar og tölum nú ekki um miðað við Ísland) hafa verið heimsótt og sennilega um 800 skáksett gefin. Hrafn hefur komið af stað svo mögnuðu verkefni að það má bara ekki leggjast af. Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, hefur staðið með leiðangursfólki við allan undirbúning.

Cintamani átti stórleik og styrkti ferðalanga með norðurpólsúlpum og við þökkum bæði þeim og: Bónus, Actavis, Eymundsson, Ís-spor og Flugfélagi Íslands fyrir alla aðstoð.

Arnar Valgeirsson

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Leiðangursmenn

,,Við erum ein fjölskylda"
,,Við erum ein fjölskylda"

Fréttir af landnámi skákarinnar og starfi Hróksins og Kalak á Grænlandi.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband