Leita í fréttum mbl.is

Blindur skákdrengur á ísbjarnaslóðum

 

Barnaskákfélagið Hrókurinn hefur um árabil gert út leiðangra til Grænlands til þess að lífga upp á tilveru grænslenskra barna og kenna þeim skák. Leiðin hefur oftast legið til Tasiilaq á austurströndinni en í apríl fór leiðangur til Ittoqqortoormiit sem er betur þekkt sem Scoresbysund. Þar hitti leiðangursfólkið meðal annarra fyrir Paulus Napatoq, blindan 13 ára dreng, sem lætur fötlun sína hvergi aftra sér og sýndi ótrúleg tilþrif við taflborðið.

Paulus Napatoq er nemandi í grunnskólanum í Ittoqqortoormiit og hefur verið blindur frá fæðingu. Hann gengur þó um bæinn sinn og skólann sem alsjáandi sé, upp og niður tröppur, smeygir sér fram hjá stólum og borðum og er með öll sín leiðarkerfi skýr í kollinum. Hann hjólar um á sumrin og ekur um á hundasleðanum sínum á veturna.

Þessi sterklegi piltur sem þeysist um þorp sitt á fullu spani hefur þegar hafið nám í helstu skákfræðum, er meðlimur í nýstofnuðu skákfélagi bæjarins Tårnet (Hrókurinn) og var gerður að heiðursfélaga í móðurfélaginu á Íslandi. Hann er því heiðursfélagi númer 11 og kominn í hóp með ekki ómerkara fólki en Jóhannesi í Bónus, Patti Smith, Huldu Hákon og Össuri Skarphéðinssyni.

Hrókurinn hefur frá árinu 2003, undir styrkri stjórn Hrafns Jökulssonar, heimsótt öll byggðarlög á austurströnd Grænlands en í vor var loksins komið að þessu nyrsta byggða bóli austurstrandarinnar.

Skákheimsóknir Hróksins hafa alltaf lífgað upp á tilveru heimfólks, enda hefur félagið haldið fjögur alþjóðleg skákmót á Grænlandi, gefið hundruð skáksetta og tekið þátt í stofnun skákfélaganna Löberen (Biskupinn) í Tasiilaq og nú Tårnet í Ittoqqortoormiit. Skákvæðingin hefur því gengið vonum framar og samskipti Íslands og Grænlands hafa aukist og styrkst, ekki síst fyrir atbeina Stefáns Herbertssonar, formanns Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, en hann hefur verið leiðangursstjóri í mörgum þessara ferða.

Í marslok lagði þriggja manna leiðangur af stað til vikudvalar á þessum fallega stað þar sem ríflega 500 manns búa. Fólkið ferðast ekki mikið milli þorpa, enda eru 800 kílómetrar í nágrannaþorpin Kulusuk og Tasiilaq. Einangrunin er því töluverð ekki síst þar sem engir eru vegirnir, og flugvélar og þyrlur eru helstu samgöngutækin.

Fallegt verður og 17 gráðu frost

Þegar þau Ólafur Kolbeinn Guðmundsson, Íris Randversdóttir og Arnar Valgeirsson lentu á þyrlupallinum skartaði bærinn sínu fegursta. Það var glampandi sól, logn og -17°C frost og þannig var veðrið meira og minna allan tímann.

Ólafur og Íris bjuggu í góðu yfirlæti á heimili skólastjórahjónanna en skólastjórinn, Peter von Staffeldt, var þó fjarverandi allan tímann þar sem hann sat fastur í Kulusuk. Ulla, konan hans, er kennari við grunnskólann og reyndist hópnum ómetanleg hjálparhella. Rétt eins og kennarinn Jörgen Thomsen sem hýsti Arnar.

Börnin í þriðja til ellefta bekk fengu kennslu í mannganginum og helstu skáktrixum síðustu tvo dagana fyrir páskafrí en í fríinu komu börnin svo í tugatali í skólann, sem var opinn vegna heimsóknarinnar, til að tefla meira. Krakkarnir tóku líka þátt í fyrsta móti hins nýstofnaða skákfélags sem gekk framar vonum.

Paulus Napatoq gaf sig fram skömmu fyrir skákmótið og var fljótur að tileinka sér fræðin. Hróksfólkið hreifst svo af dugnaði piltsins, elju hans og áhuga á skákinni að ekki þótti annað koma til greina en að gera hann að heiðursfélaga.

Paulus fékk sérstaka aðstoð Hróksfólksins og með hjálp eins kennara síns, fyrrnefnds Jörgens, hlaut heiðursfélaginn nýi fallegt skáksett til eignar auk skýringasetts sem mun auðvelda honum lærdóminn.

Paulus hafði þó ekki tíma til að vera með í mótinu því hann hafði sett hundana sína fyrir sleðann og var á leið í Uunartoq eða Kap Tobin, sem er lítill bær hinum megin við ísilagt sundið, sjö km frá Ittoqqortoormiit. Bærinn er kominn í eyði en veiðimenn halda þar til auk þess að þar eru bústaðir fyrir ferðamenn. Stór og feitur ísbjörn hafði verið felldur þar helgina áður þegar hann trítlaði inn í bæinn. Þar sem börn í skólaferðalagi voru í bænum þótti ekki annað hægt en koma bangsa fyrir kattarnef. Allmargir ísbirnir voru á sveimi á sundinu þessa vikuna en þeir hætta sér ekki inn í Ittoqqortoormiit þar sem hundarnir liggja í breiðfylkinu við minni sundsins og gæta bæjarins.

Samvinna Hrókanna

Allir sem gerðu sér ferð í skólann á mótsdegi, hvort sem var á barnamótið að degi til eða fullorðinsmót að kveldi, fengu vinninga og gjafir frá Íslandi. Glitnir og Hrókurinn lögðu til vinningana; boli, húfur, USB-lykla, skáksett og –tölvur auk þess sem íslenskt sælgæti fylgdi með. Nú eru öll börn og unglingar í Ittoqqortoormiit því vandlega merkt Glitni, einnig þau yngstu því barnaheimilið í bænum fékk boli og húfur og auðvitað skáksett.

Sigurvegari þessa fyrsta móts grænlenska Hróksins var hin 17 ára gamla Ikila Brönlund og á eftir komu þau Kamilla Lorensen og Jonas Madsen, sem eru bæði nokkru yngri. Hver bekkur grunnskólans í bænum á nú skáksett. Tårnet á ríflega tuttugu sett og helstu samkomustaðir þorpsins eru með taflborð uppi við.

Síðasta skáksettið af þeim sextíu sem hópurinn flutti frá Íslandi stendur tilbúið á Constable Pynt, einmanalega flugvellinum í norðri þar sem ferðalangar geta stytt sér stundir yfir tafli. Þar er bókin Skák og mát einnig til taks vilji byrjendur taka eina bröndótta á leið sinni á norðurheimskautið.

Ólafur Kolbeinn og Arnar tóku þar eina slíka meðan beðið var eftir vélinni til baka og eftir miklar sviptingar, fórnir og fléttur hafði Ólafur Kolbeinn, forseti hinna Kátu biskupa í Hafnarfirði, sigur þar sem hvítu hrókarnir tveir þjörmuðu orðið óþægilega að svörtum kóngi Arnars.

Þessi stutta skákheimsókn mun seint gleymast þremmenningunum og bærinn og íbúar hans heilluðu þau svo að þegar er farið að huga að endurkomu. Paulus og aðrir meðlimir Tårnet mega því eiga von á öðrum leiðangri fyrr en síðar og þá munu hinir íslensku og grænlensku Hrókar setja upp veglegt mót. Þá er ekki loku fyrir það skotið að heiðursfélaginn blindi muni lóðsa gestina í sleðaferð í leit að hvítum böngsum við sundið magnaða.

Grein þessi birtist í Mannlífi á vordögum. Birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra.

www.hrokurinn.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Leiðangursmenn

,,Við erum ein fjölskylda"
,,Við erum ein fjölskylda"

Fréttir af landnámi skákarinnar og starfi Hróksins og Kalak á Grænlandi.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband