Leita í fréttum mbl.is

Föstudagurinn langi

cimg0669.jpgAð sjálfsögðu var farið í grænlenska messu i tilefni föstudagsins langa. Hoppað snemma á fætur enda dagurinn langur! Helmingur leiðangursmanna trítlaði í kirkjuna að hlusta á djákna bæjarins fara með guðsorð og þó ekki hafi allt síast inn var þetta ósköp falleg stund.

cimg0683.jpgJessussi, Kristussi, Maria og Amen var nú eiginlega það sem  komst í gegn en það var gott að hefja daginn á friðarstund og vera svo klár í 60 manna stórmót síðdegis.

 

Páskaeggjamótið var magnað og gaman að því að hjálparhellan og snillingurinn hún Sikkerninnguaq cimg0845.jpgLorentzen skyldi vinna í yngri flokki. Hún átti það svo sannarlega skilið og ekki leiðinlegt að sjá þrjár stelpur í þremur efstu.

 

cimg0797.jpgLars Simonsen vann eldri flokkin örugglega, enda sennilega besti skákmaður bæjarins. Í eldri flokki vann Lars eina mótið sem hann tók þátt í, Paulus Napatoq vann tvö og Emil Arqe eitt.


Eintómir snillingar

529091_10150798987028338_538163337_11874683_1892333544_n.jpg

Þessir heiðurspiltar eru þrír af fjórum leiðangursmönnum Hróksins og Kalak. Stefán Bergsson, framkvæmdastjóri Skákakademíunnar og skákkennari, Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins og upphafsmaður Grænlandsferðanna. Fyrir hans tilstilli hafa öll þorp austurstrandarinnar verið heimsótt í yfir 20 ferðum og nálægt 1000 skáksetta gefin börnum og í skóla. Lengst til hægri er Jón Birgir Einarsson, frábær liðsmaður og ekki kemur að sök að drengurinn er sálfræðimenntaður! Sá fjórði var Arnar Valgeirsson.

575035_10150804293253338_538163337_11895723_1825574145_n.jpg

Þessir heiðursmenn voru leiðangursmönnum innan handar enda ánægðir með skákveisluna. Til vinstri er Jens Christian, húsvörður í grunnskólanum og sex barna faðir. Til hægri er naglinn hann Jaerus Arqe, sjö barna faðir sem hefur margsinnis boðið leiðangursmönnum undanfarinna ára í mat. Nú bauð hann uppá moskuxa eða sauðnaut, sem hann að sjálfsögðu veiddi sjálfur. Áður hefur hann boðið upp á ísbjarnarlæri í karrýsósu og rostung, svona meðal annars. Þeir piltarnir buðust til að "skutla" skáktrúboðunum 35 km vegalengd að Constable Pynt flugvellinum á snjósleðum. Það var hressandi en nokkuð kallt!

580593_10150804288103338_538163337_11895652_2127041075_n.jpg

 Þessir heiðursmenn héngu bara í Ittoqqortoormiit í frostinu. Gera má ráð fyrir að þetta séu allt karlar enda stranglega bannað að fella birnur með húna sína, nema í algjörri sjálfsvörn. Það getur verið grimmt lífið þarna á 70° breiddar, en það borgar sig allavega ekki að bögga bæjarbúa, þeir vilja enga bjössa í bæinn þegar börnin eru úti að leika sér.

543180_10150801660803338_538163337_11886973_200094099_n.jpg

En allt snýst þetta nú um skákina og veislu í heila viku. Börnin eru algjörlega æst í að fara í skólann, jafnvel þó komin séu í páskafrí og tefla sem enginn sé morgundagurinn. Þau yngri skemmta sér konunglega og sýna gríðarlegar framfarir. Leiðist sko ekki þegar verðlaunaafhendingin fer fram, enda fá allir vinninga. Hér eru allir sigurvegarar, enginn sem tapar. Hvort sem maður er ungur að uppgötva tilveruna, eða...

b_nus_-_rval_4_1146348.jpg

... eldri og reyndari. Jafnvel hvort maður sé alsjáandi eða blindur. Hér má sjá hinn mikla snilling, Paulus Napatoq sem tekur ekki í mál að láta sjónleysi stoppa sig á nokkurn hátt. Hann fer á skíði, hjólar um á sumrin, rúllar yfir jafnaldra í skák og skreppur út á ísinn á hundasleða. Með byssu um öxl! Á móti honum er frændi hans og vinur, Emil Arqe, sem reyndar gerði sér lítið fyrir og vann fyrsta mótið. Því verður ekki á móti mælt að í hinu einangraða Ittoqqortoormiit við hið magnaða Scoresbysund búa snillingar. Náttúrubörn sem taka Íslendingunum galopnum örmum.


Páskaeggin frá Bónus slógu í gegn: Stúlkur í þremur efstu sætum á síðasta stórmótinu í Ittoqqortoormiit

1Stúlkur urðu í þremur efstu sætunum á 44 Bónus-barnaskákmóti sem leiðangursmenn Hróksins og Kalak héldu í dag. Hin 16 ára Sikkerninnguaq Lorentzen sýndi gríðarlegt öryggi og sigraði í öllum 6 skákum sínum. Í öðru sæti varð systir hennar, Sara, og Isabella Simonsen hreppti bronsið.

Í flokki fullorðinna sigraði Lars Simonsen með 11,5 vinning af 12 mögulegum, en næstir komu frændurnir Emil og Esajas Arqe.

Allir keppendur dagsins voru leystir út með páskaeggjum frá Bónus, en aðrir sem gáfu vinninga í dag voru Sögur útgáfa, Fjallið hvíta og Telepost. Þá gaf Ísspor bikara og verðlaunapeninga.

Þetta var síðasta stórmótið í ferðinni að þessu sinni, en sú spurning sem brann á vörum krakkanna var einföld: Verður önnur skákhátíð á næsta ári?

Svarið liggur í augum uppi: Já, svo sannarlega!

Myndaalbúm dagsins!


Theodor er Cintamani meistari Grænlands 2012: Paulus Atlantsolíu-meistari!

10Skírdagur í Ittoqqortoormiit: Enn eitt stórmótið og auðvitað var gleðin allsráðandi. Cintamani, Atlantsolía og Sögur útgáfa sáu til þess að allir keppendur -- 60 talsins! -- fengu verðlaun. Sigurvegari í eldri flokki var undradrengurinn Paulus Napatoq en í yngri flokki fór Theodor Napatoq með sigur af hólmi.

Áhugi krakkanna hér á 70. breiddargráðu er ólýsanlegur, og margir sýna frábær tilþrif við skákborðið. Næstum öll börnin, sem stödd eru í bænum í páskafríinu mættu til leiks.

19Leiðangursstjórinn Arnar Valgeirsson, sem nú er í sjöttu heimsókn sinni til Ittoqqortoormiit, segir að móttökur bæjarbúa séu frábærar og hann hefur þegar gefið út tilkynningu um að Hrókurinn og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, verði aftur á ferð á næsta ári.

Myndaalbúm!


Myndir úr skákveislunni miklu á 70. breiddargráðu

36Skákveislan í Ittoqqortoormiit hefur gengið stórkostlega. Hér eru myndaalbúm frá fyrstu dögunum -- það er bókstaflega ekki annað hægt en taka góðar myndir á Grænlandi!

Skoðið og njótið.

Skákkrakkarnir!

Stórmót Pennans-Eymundsson og Ísspors

Fjör í fjöltefli

Sólríkur dagur í norðrinu

Skákgleði

Hátíð 2012


16 ára stúlka sigraði á stórmóti Pennans-Eymundsson og Ísspors

17 Enn einn dásamlegur dagur á Grænlandi. Við heimsóttum grunnskólann í morgun og fórum yfir undirstöðuatriði skáklistarinnar -- en þess gerðist varla þörf, því eftir fimm ára starf á 70. breiddargráðu eru öll börnin í ísbjarnarbænum með jafnvel hin fínustu blæbrigði skáklistarinnar á hreinu.

Seinnipartinn var svo efnt til sannkallaðs stórmóts, með tilstyrk Pennans-Eymundsson og Ísspors. 50 börn á grunnskólaaldri tefldu og leikgleðin var allsráðandi. Hin 16 ára gamla Sikkerninnguaq Lorentzen stóð uppi sem sigurvegari með 6 vinninga af 7, en öll börnin voru sigurvegarar og öll fengu þau glaðning frá bakhjörlum okkar.

11Í eldri flokki sigraði svo unga glæsimennið Paulus Napatoq, sem varð tvítugur á dögunum. Hann er blindur en lærði skák í fyrstu heimsókn okkar hingað og hefur síðan sýnt ótrúleg tilþrif á skákborðinu.

Veðrið leikur við okkur hér í norðrinu: Hér eru sólin og lífsgleðin í aðalhlutverkum.

 Skákhátíðin mikla heldur áfram á morgun!

 Myndaveisla dagsins.


Gleðifréttir frá Grænlandi: Öll börnin í Ittoqqortoormiit kunna að tefla!

CIMG0208Stórkostlegur dagur á Grænlandi er að kveldi kominn: Ittoqqortoormiit iðar af skáklífi og í dag heimsóttum við grunnskólann og fórum yfir undirstöðuatriðin í 6. til 10. bekk.

Í fyrramálið er röðin komin að yngri bekkjunum, og góðu fréttirnar eru þær að hér um bil hvert einasta barn í þorpinu kann mannganginn.

CIMG0254Síðdegis var svo efnt til fjölteflis þar sem Stefán Bergsson og Hrafn Jökulsson tefldu við samtals 99 börn! Það þýðir að næstum öll börn í afskekktasta þorpi norðurslóða tóku þátt í fjölteflinu.

Gleðin var allsráðandi, og húrrahrópin voru einsog á heimsmeistaramóti þegar einhverjum tókst að ná jafntefli eða vinningi gegn íslensku gestunum.

Hrafn gerði jafntefli við Ib, Daniel og Seth en mátti lúta í gras gegn Sikkersoq. Stefán Bergsson var hinsvegar fórnarlamb glæsilegrar mátfléttu hins 13 ára Jeremiasar Madsen.

CIMG0236Í kvöld voru leiðangursmenn boðnir í mat til Napatoq-fjölskyldunnar, og þar var ljúffengt grænlenskt sauðnaut á borðum. Paulus Napatoq, sem varð tvítugur á dögunum, er íslenskum skákáhugamönnum að góðu kunnur.

Hann er blindur, en lærði að tefla í fyrstu heimsókn Hróksmanna til Ittoqqortoormiit fyrir fimm árum og tók þátt í Skákhátíð á Ströndum árið 2008. Faðir hans, Jaerus Napatoq, er einn af frægustu veiðimönnum Austur-Grænlands, og Nikoline kona hans matreiddi ljúffengan sauðnautsrétt fyrir hina íslensku gesti.

Grænlendingar eru miklir höfðingjar heim að sækja og okkur er hvarvetna tekið af mikilli hlýju og vinarhug.

Og náttúran sjálf er í hátíðarskapi: Veðrið er milt, stillt og kyrrt, og sólin er einráð á bláum himni.


Ballið er byrjað í ísbjarnarbænum: Meira en 40 keppendur fyrsta daginn!

Framtíðarsóknarmenn Barcelona og Caissu!Leikgleðin var í aðalhlutverki þegar leiðangursmenn Hróksins og Kalak blésu til fyrsta stórmótsins í Ittoqqortoormiit, einangraðsta þorpi norðurslóða. Þar með hófst páskaskákhátíðin, fimmta árið í röð og er óhætt að segja að skákin hafi slegið ærlega í gegn í þessum 470 bæ, þar sem ísbirnir eru einatt á vappi.

Skákprinsessa á GrænlandiKeppt var í nokkrum aldursflokkum og í flokki 9 til 12 ára urðu Ivan, Niels og Didu í efstu sætum eftir jafna og skemmtilega baráttu.

Í flokki 13 til 16 ára var keppendur skipt í tvo riðla vegna mikillar þátttöku. Í A-flokki  tefldu bræðurnir Sikkersooq og Aannquaq til úrslita, og þar sigraði sá fyrrnefndi eftir æsispennandi skák sem vakti mikla athygli. Næst komu Seth og Janu.

Í hinum flokkum urðu systurnar Sara og Sikkerninnguaq efastar og jafnar, og deildu gullverðlaunum.

Flokkur 17 ára og eldri var vel skipaður en táningurinn Emil Arge gaf engin grið og sigraði í öllum skákum sínum.

DSC_0996Helstu hjálparhellur við mótshaldið voru Knud Eliasson kennari og heiðursfélagi Hróksins, auk þess sem við nutum dyggrar aðstoðar hinnar ungu Sikkerninnguaq, sem er uppvaxandi skipuleggjandi ekki síður en skákdrottning.

Frábær byrjun á 70. breiddargráðu.

Í fyrramálið förum við í heimsókn í skólann, og allt skólalíf verður lagt undir skáklistina. Seinnipartinn munu svo Hrafn Jökulsson og Stefán Bergsson tefla fjöltefli við börn og fullorðna og má búast við glens og gamni.

Bæjarbúar hafa tekið okkur tveimur höndum, enda er þetta fimmta árið í röð sem leið Hróksins og Kalak liggur til Ittoqqortoormiit. Heimsóknin núna markar jafnframt upphafið að tíunda starfsári Hróksins á Grænlandi.

Það er líka gaman að finna hve Grænlendingar hafa Íslendinga í miklum hávegum og líta á þá sem nánustu vini sína og samherja í heiminum.

Og við getum með sanni sagt að það eru forréttindi að eiga slíka nágranna, því ekkert land í heiminum jafnast á við Grænland og fólkið hér er einstaklega velviljað, hjálpsamt og elskulegt.

Áfram Grænland!

Myndaalbúm frá fyrsta mótinu 2012!


,,Vi spiller skak!" hrópa börnin í ísbjarnarbænum á 70. breiddargráðu

,,Vi spiller skak!" hrópuðu börnin í Ittoqqortoormiit, þegar skáktrúboðar Hróksins og Kalak birtust á sólríkum laugardegi, þar sem hin mikla móðir lífsins stráði geislum sínum yfir ísbreiðuna.

Börnin í afskekktasta þorpi heims hafa hlakkað í allan vetur til heimsóknar íslensku skákmannanna: Framundan er hátíð á 70. breiddargráðu.

Hér eru húsin, flest hver, á kafi í snjó. Hlekkjaðir sleðahundar flytja aríur um það hlutskipti að vera ólaðir niður meðan víðernin kalla.

DSC_0127Börnin, þessi dásamlegu grænlensku börn, hoppa og skoppa í frostinu; kjá framan í skrýtnu Íslendingana sem eru bæði með skáklistina í farteskinu, og öll páskaeggin og gjafirnar frá íslenskum vinum.

Það eru forréttindi að fá að eyða páskavikunni 800 kílómetra frá næsta byggða bóli, í bænum þar sem ísbirnir eru næsta daglegir gestir, í þorpinu þar sem börnin fá að kynnast lífinu á hinum einu sönnu norðurslóðum.

DSC_0123,,Vi spiller skak!" hrópa þau, glaðbeitt, og á morgun byrjar hátíðin mikla í Ittoqqortoormiit -- þorpi hinna stóru húsa einsog það heitir á grænlensku -- þorpinu sem við Íslendingarnir höfum bundist ástfóstri við.

Hátíðin er rétt að byrja: Fylgist með á Myndaalbúm frá degi 1: Hrafn Jökulsson.


Kalli, Bjössi og piltarnir

cimg1821

Karl Napatoq er hér að skera sel handa hundum sínum sem fylgjast spenntir með.

Karl hefur farið með leiðangursfólk í hundasleðaferðir, bræður hans líka. Karl er átján ára og hefur verið veiðimaður i tvö ár, veitt moskuxa eða sauðnaut, auðvitað seli og í það minnsta einn ísbjörn. Karl er sonur hjónanna Jaerusar og Nikoline, sem eiga sjö börn og öll eru þau með í skákinni þegar skáktrúboðarnir koma.

197755_10150100400347455_735567454_6864398_1675004_n

Martin sem lengi bjó í Scoresbysundi ásamt Karinu sinni og börnunum Freyju og Storm, er fluttur með fjölskyldu á Svalbarða. Þar er alls ekki hlýrra en á austur Grænlandi, en þau tóku þar við hundabúi. 100 hundar og strax komu 15 hvolpar.

Martin tók þessa mynd í fyrra þegar birna og húnar voru að leika sér við fjöruborðið. Dauðlangaði í bæinn en hundarnir vildu ekki hleypa þeim alla leið. Sem betur fer...

45.tveir sprækir í fjöltefli

Þessir dúddar voru þvílíkt hressir í fjölteflinu. Þeir verða eflaust ekki minna hressir í ár, og væntanlega orðnir miklu betri líka. En þegar hátt í 20% bæjarbúa eru að taka þátt í mótum, sem verða nær daglega á næstunni, þá er ekki hægt að klaga. Sérstaklega ekki þegar nær öll yngri kynslóðin er í skólanum í fríinu sínu. Að tefla.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Leiðangursmenn

,,Við erum ein fjölskylda"
,,Við erum ein fjölskylda"

Fréttir af landnámi skákarinnar og starfi Hróksins og Kalak á Grænlandi.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband