27.3.2012 | 21:17
Grænlandsmót á Haítí á miðvikudagskvöld!
Þar verða leiðangursmenn í ferð Hróksins og Kalak til Ittoqqortoormiit, en þar verður haldin mikil skákhátíð um páskana.
Skákhátíðin í Ittoqqortoormiit, sem er afskekktasta þorp norðurslóða, markar upphafið að tíunda starfsári Hróksins og Kalak við útbreiðslu skáklistarinnar á Grænlandi.
Mótið á Haítí er kærkomið fyrir hina fjölmörgu Grænlandsvini meðal skákáhugamanna, en allir eru hjartanlega velkomnir.
Tefldar verða 7 umferðir og eru 12 mínútur í pottinum fyrir hverja skák. Stigalægri keppendur fá tímaforgjöf gegn hinum sterkari, svo spennan eykst til muna.
Kaffi Haítí er við Geirsgötu 7B (rétt hjá Hamborgarabúllunni) og þar er tvímælalaust besta kaffi í bænum og aðrar ljúffengar veitingar.
Þátttaka er ókeypis, en Arnar Valgeirsson leiðangursstjóri til norðurslóða tekur við frjálsum framlögum, sem notuð verða til kaupa á gjöfum handa börnunum í Ittoqqortoormiit.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2012 | 09:49
Páskahátíð á Grænlandi: Skák í afskekktasta þorpi norðurslóða
Skákhátíð verður haldin um páskana í grænlenska þorpinu Ittoqqortoormiit, sem er á 70. breiddargráðu, 800 kílómetra frá næsta byggða bóli. Að hátíðinni standa Hrókurinn og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands. Heimsóknin markar upphaf 10. starfsár liðsmanna Hróksins og Kalak, meðal grænlenskra barna.
Heimsóknin nú stendur frá 31. mars til 7. apríl og verður fjölbreytt skákdagskrá í skólanum. Rúmlega 100 börn búa í Ittoqqortoormiit, sem telja má afskekktasta þorpi á norðurhveli jarðar. Alls eru íbúar nú tæplega 500 og hafa flestir viðurværi af veiðum og þjónustu.
Þetta er fimmta páskaheimsóknin í röð til Ittoqqortoormiit, og hátíðin er orðin fastur liður í mannlífinu. Langflest börnin í þorpinu kunna nú mannganginn og eiga taflborð, og bíða spennt eftir skákhátíðinni um páskana.
Margir leggjast á eitt svo hátíðin heppnist sem best. Menningar- og tómstundaráð sveitarfélagsins Sermersooq og NunaFonden veittu fjárhagslegan stuðning.
Bónus gefur 100 páskaegg í vinninga á barnaskákmótum, og fjölmargir leggja til vinninga og verðlaun, m.a. Ísspor, Penninn/Eymundsson, Atlantsolía, Sögur útgáfa, Íslenskt grænmeti, Actavis og Fjallið hvíta.
Þá gefur Cintamani veglega vinninga handa börnunum og leggur leiðangursmönnum til skjólfatnað, enda allra veðra von svo norðarlega á Grænlandi.
Leiðangursstjóri er Arnar Valgeirsson, sem hefur stjórnað skákvæðingunni í Ittoqqortoormiit frá upphafi. Liðsmenn hans verða Hrafn Jökulsson, Jón Birgir Einarsson og Stefán Bergsson.
Grænlandskvöld á Haítí á miðvikudagskvöld
Miðvikudagskvöldið 28. mars efna Grænlandsfararnir og aðrir velunnarar til Grænlandsmóts á Kaffi Haítí við Geirsgötu 7b. Gleðin hefst klukkan 20.30 og eru allir velkomnir.
Tefldar verða 6 umferðir með tímaforgjöf. Þátttökugjöld eru engin, en leiðangursstjóri mun taka við framlögum í verðlaunakaupasjóð!
Grænlendingar eru næstu nágrannar Íslendinga. Hrókurinn hélt fyrsta alþjóðlega skákmótið í sögu Grænlands árið 2003. Meðal keppenda voru Friðrik Ólafsson, Halldór Blöndal, Jonathan Motzfeldt, Ivan Sokolov, Luke McShane, Regina Pokorna og Ivan Sokolov.
Síðan 2004 hefur öll áhersla verið lögð á skákviðburði á austurströnd Grænlands, og veglegar skákhátíðir hafa verið haldnar í Tasiilaq og öll þorpin á Austur-Grænlandi heimsótt. Vel á annað þúsund grænlensk börn hafa fengið taflsett að gjöf, og heimamenn hafa stofnað til skákfélaga í nokkrum þorpum.
Fréttir af leiðangrinum til Grænlands verða sagðar hér á Góðum granna. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með, og kynnast í leiðinni töfraheimi Grænlands.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2012 | 23:24
Skáæði í uppsiglingu!
Tíu stórir og feitir kassar fóru í flugfragt í dag og verða vonandi komnir áður en þyrlan lendir með sendiboða Hróksins og Kalak innanborðs, laugardaginn 31. mars.
Skákklukkur og eitthvað af -settum, páskaegg og grænmeti, ljósmyndabækur, pússl og spil, buff og bikarar. Actavis bættist í hóp styrktaraðila, hefur jú styrkt áður. Drykkjarbrúsar, derhúfur og fullt af nammi! Þetta verður súper.
Á morgun verða um mínus 8 gráður og stillt veður. Ekki verra ef það yrði þannig á næstunni. En það er ekkert öruggt varðandi veðrið, einn daginn er kannski logn og 0 gráður og þann næsta stormur og mínus tuttuguogsjö!
Krakkarnir vita af komu skáktrúboðanna og senda skilaboð á facebook og tölvupóst og spyrja um hvernig mótin verði, vinninga o.s.fr. Skákæði er í uppsiglingu.
Bloggar | Breytt 25.3.2012 kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2012 | 16:36
Troðið í kassa
Ferðalangar, sem farnir eru að finna til föðurland og lopasokka, eru afar þakklátir fyrir þann stuðning sem sýndur hefur verið.
Nú síðast buðust ljósmyndabækur frá Sögur- útgáfu, sem þykja nú grand vinningar og gjafir, sem og fjöldinn allur af handspilum frá Fjallinu hvíta.
Það er verið að hagræða í kössum, þvi eitthvað af skákvarningi fer með westur um haf, páskaegg handa öllum grunnskólanemum frá Bónus, bikarar og verðlaunapeningar fyrir öll mótin frá Ísspor, pússl og spil í verulegu magni frá Pennanum/Eymundsson, buff á kolla allra þátttakenda frá Atlantsolíu og svo fylgir sko heldur betur glænýtt grænmeti frá Sölufélagi garðyrkjumanna.
Þetta lítur hrikalega vel út. Í dag er smá snjókoma, léttur andvari og bara tíu stiga frost í Ittoqqortoormiitl. Getur ekki verið betra!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2012 | 16:24
Fjármálin leyst
Það er alltaf svolítið ævintýri þegar farið er af stað með ferð eins og þá sem farin verður nú þann 31. mars uppeftir að Ittoqqortoormiit. Sótt hefur verið um styrki en þær umsóknir eru ekki teknar fyrir fyrr en í febrúar, jafnvel mars. Þá þarf að vera búið að greiða fyrir flug, þyrlu og annað þannig að ferðalangar krossa bara fingur og vona að fá jákvæð svör.
Þau fengust núna i vikunni, Kúltur og fritidsråd Sermersooq bæjarfélagsins styrkir Hrókinn veglega og Nuna fonden leggur til fjármagn þannig að útlitið er bjart. Hrókurinn og Kalak eru auðvitað afar þakklát fyrir þessa fjárstyrki sem gera það að verkum að leiðangursmenn þurfa ekki að greiða með sér. Þó allir séu áhugasamir um að heimsækja þetta glæsilega þorp þá verður stanslaus skák og töluverð vinna, mikill undirbúningur og þarf að taka frí og annað slíkt.
Frá því að Ísland lagðist aðeins á hliðina fyrir fjórum árum hefur verið erfiðara að fá fjárstyrki en hinsvegar hafa mörg fyrirtæki tekið afar jákvætt í að hjálpa til með vinninga handa krökkunum og létta heldur betur undir með ferðalöngum.
Ísspor við Síðumúla gefur bikara og verðlaunapeninga á öll mótin. Penninn/Eymundsson hefur gefið allskyns spil og pússl, Atlantsolía gefur boli og derhúfur, Sölufélag garðyrkjumanna sendir grænmeti með skáktrúboðunum og Bónus gefur öllum börnum grunnskólans páskaegg. Þau slá svo sannarlega í gegn. Þá hefur Flugfélag Íslands komið veglega til móts við Hrókinn öll þau ár sem skákvæðing Grænlands hefur staðið yfir.
Ef ekki væri fyrir velvilja fyrirtækjanna yrðu mótin fátæklegri og gaman að geta haldið uppteknum hætti með að allir þátttakendur fái vinning. Það eru allir sigurvegarar og enginn sem tapar, sama hve mikið hann kann eða hve gamall er. Stelpur og strákar tefla í sama mæli og stelpurnar eru engir eftirbátar drengjanna.
Íbúar Ittoqqortoormiit við Scoresbysund treysta á að liðsmenn Hróksins komi á hverju vori og þakklæti er sýnt með matarboðum og aðstoð við hvað sem er. Ein móðirin hafði samband og sagði að ung dóttir sín tefldi nú öllum stundum við frændur og frænkur. Undirbúningur vegna skákhátíðar semsagt löngu hafinn! Hún sagðist svo þakklát fyrir hvað gert hefði verið fyrir dóttur hennar og börnin í þorpinu undanfarin ár að hún vildi bjóða leiðangursmönnum í kvöldmat.
Matarboðin eru ævinlega mögnuð og aldrei að vita hvað verður boðið upp á. Oft er það moskuxi eða sauðnaut sem er kóngafæði. Stundum selur eða rostungur, jafnvel hvalshúð eða ísbjarnarkjöt.
Hugsanlega þó svínabógur eða kjúklingur en það er ekkert spennandi þegar ofantalið er komið í umræðuna.
Krakkarnir fá þó páskaegg. Það er miklu meira spennandi en ísbjarnarkjöt í karrý þegar maður er barn á 70° norðlægrar breiddar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2012 | 19:28
Tilhlökkun
Eins og sjá má á þessum myndum er ekki undarlegt að skáktrúboðarnir séu farnir að hlakka til. Ittoqqortoormiit er bær sem er einstæður. Merkilegt að þarna á 70° norðlægrar breiddar skuli búa tæplega fimm hundruð manns, en byggð hefur verið þarna í ein 70 ár eða rúmlega það. Þá fluttu Danir nokkrar fjölskyldur þangað uppeftir eftir að Norðmenn voru farnir að sýna þessari eyju einum of mikinn áhuga að mati Dana. Fluttu fólkið frá Ammassalik svæðinu, en það eru tæplega þúsund km þarna á milli.
Það hefur væntanlega verið ótrúlega erfitt að alast upp í svo mikilli einangrun, en samgöngur eru þó ágætar núorðið. Flogið er tvisvar í viku að flugvellinum Constable Pynt og þyrla fer svo í bæinn, 50 km leið. Ef hún er full, eða ekki flogið, er hægt að fara með snjósleða, eða hundasleða sem þó tekur býsna langan tíma. Það lítur út fyrir að ferðalangar ferðist með snjósleða á leið frá bænum að flugvelli. Það verður klárlega ævintýri og klárlega kallt.
Þessi birna var að spóka sig með hún nánast við bæjardyrnar í fyrra. Það er ekki gaman að lenda í svona dýri, það er nokkuð ljóst. En krúttleg er hún svona í fjarska!
Jens Ravnskjær. skólastjóri, er að vinna í því að finna ferðalöngum gott húsnæði og hann hefur fengið plan í hendur. Hreinlega stundaskrá þar sem farið er yfir tíma í kennslu og mótum, fjöltefli og öllu sem viðkemur skákinni.
Þetta verður að öllum líkindum stórvel heppnað. Þá er bara eftir að pakka niður nokkrum skákklukkum, vinningum sem reyndar eru í kassavís handa krökkunum, bikurum og verðlaunapeningum og senda fljótlega með Flugfélagi Íslands sem einmitt hefur ávallt komið afskaplega vel til móts við Hrókinn og Kalak vegna bæði skákar og heimsóknar barna sem koma til Íslands að læra að synda. Þess má geta að í fyrstu heimsókn Hróksfólks í Ittoqqortoormiit við Scoresbysund um páskana 2007 fengu bæjarbúar ein fimmtíu skáksett og er megnið af þeim í skólanum.
Hrafn, Stefán, Jón Birgir og Arnar telja niður dagana.
Gens una Sumus - við erum ein fjölskylda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2012 | 23:57
Næsta stopp: Ittoqqortoormiit
Undirbúningur fyrir heimsókn Hróksmanna til Ittoqqortoormiit við Scoresbysund, sjöttu páskana í röð, er hafinn.
Nýr skólastjóri grunnskólans, Jens Ravnskjær, hlakkar til að hitta leiðangursmenn og sjá nemendur sína dvelja í skólanum sínum meira og minna allt páskafríið, af fúsum og frjálsum vilja. Við skákiðkun!
Fjórir skáktrúboðar munu ferðast með Flugfélagi Íslands til hins einmananlega alþjóðaflugvallar Constable pynt þann 31. mars og fara þaðan með þyrlu frá Air Greenland yfir í þetta magnaða þorp þar sem um 470 búa í einangrun. Þó eru einhver hundruð hunda í bænum og ísbirnir ekki langt undan. Stundum bara nánast við bæjardyrnar.
Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, hefur tekið virkan þátt í undirbúningi og aðstoðað á allan hátt. Skákkennsla verður í fyrirrúmi en sett verða upp mót, nánast daglega, fjöltefli og það er ljóst að krakkarnir munu taka ferðalöngunum fagnandi.
Ekki síst hann Paulus Napatoq, sem nú er á tuttugasta aldursári en hann lærði mannganginn árið 2007 og gerði sér lítið fyrir og vann 60 manna mót árinu síðar. Það þykir ekki slæmt þegar maður er blindur!
Þeir félagar; Stefán Bergsson, framkvæmdastjóri Skákakademíu Reykjavíkur og skákkennari, Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, Jón Birgir Einarsson félagi í Skákfélagi Vinjar og mannvinur hinn mesti og svo Arnar Valgeirsson leiðangursstjóri, hlakka heldur betur til.
Scoresbysund er um 350km langur fjörður og 80km breiður - sem gerir hann að stærsta firði heims - er stórkostlegur í alla staði. Ittoqqortoormiit er grænlenskara en allir aðrir grænlenskir bæir og þarna komast menn svo sannarlega í snertingu við náttúruna. Norðurljósin æða yfir bæinn undir spangóli hundanna í fallegu veðri, svona milli þess sem að stormur æðir yfir og frostið getur bitið í bossan. Hitinn er yfirleitt frá ca 0°og allt að mínus 30°á þessum árstíma.
Fjöldi fyrirtækja gefur vinninga á mótin og öll börnin fá vinning. Í Ittoqqortoormiit er það enginn sem tapar á mótunum, allir eru sigurvegarar.
Færslur munu detta inn, hver á fætur annarri, næsta mánuðinn.
Gens una Sumus - við erum ein fjölskylda!
Bloggar | Breytt 5.3.2012 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2011 | 20:29
Tim
Við sjáum að enn er fólk að kíkja hér inn þó virkni síðunnar sé ekki til mikillar fyrirmyndar.
Grænlenska útvarpið setti þó klausu á vefinn sinn og sýnir þar mynd frá honum Tim Vollmer. Þar má glöggt sjá að skákin spyr ekki um aldur, allir með og tóm skemmtun:
http://knr.gl/da/news/skakmat-til-illoqqortoormiut
Já, við eigum von á því að Morgunblaðið verði með grein um ferðalagið, sem og myndir eftir hann Tim sem er auðvitað alveg í heimsklassa. En hún Hrund, blaðamaðurinn okkar sem á eftir að koma með skemmtilega vinkla í Mannlíf og Nýtt líf á næstunni, er sérdeilis lunkinn ljósmyndari og tók þessa mergjuðu mynd af honum Tim þar sem hann er að skella myndum í tölvuna sína við öðruvísi aðstæður en oft áður!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2011 | 21:14
Hamingjusamur afmælisdrengur
Hann Jeremias Madsen var býsna kátur með þriðja sætið og páskaeggið frá Bónus í páskamótinu sem haldið var mánudaginn fyrir páska. Jeremias hefur teflt á öllum mótum Hróksins í Scoresbysundi síðan fyrsta ferðin var 2007.
Þessi piltur sem átti tólf ára afmæli á þriðjudeginum fékk afmælissönginn á íslensku og grænlensku í afmælisgjöf. Og fullan Eymundsson poka af dóti.
Jamm, það er ekki leiðinlegt að fá stórmót í afmælisgjöf, pakka og söng. Hamingja i Ittoqqortoormiit.
Bloggar | Breytt 26.3.2012 kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2011 | 22:09
Upphafin fegurð
Ittoqqortoormiit eða Staður hinna stóru húsa. Hér í öllu sínu veldi séð í gegnum linsu Tims Vollmer. Myndin er tekin af þyrlupallinum sem er upphaf og endir ferða til þessa ótrúlega magnaða staðar.
Þegar leiðangursmenn mættu á svæðið var sól og blíða og aldeilis indælisveður þrátt fyrir um 15 stiga frost. Daginn eftir brast á bilaður stormur og snjóskaflar stækkuðu umtalsvert. En það gerði fegurðina bara enn meiri.
Á sundinu mættum við þessum á sunnudagsrúntinum....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Spurt er
Tenglar
Grænlandsvinir
- Kalak Vinafélag Íslands og Grænlands
- Flugfélag Íslands Taktu flugið
- Penninn Styður starf Hróksins og félaga á Grænlandi!
- Íslenskt grænmeti Styður starf Hróksins og félaga á Grænlandi
- Henson Laaangflottastur!
- Bónus
- Cintamani Flottar flíkur í fimbulkulda
- Sögur útgáfa
- Actavis Hagur í heilsu
- Ísspor Verðlaunagripir
- Atlantsolía
- Fjallið Hvíta
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar