Færsluflokkur: Bloggar
15.4.2011 | 17:55
Fjöltefli í fullum gangi
Nú stendur yfir fjöltefli í skólanum í Ittoqqortoormiit. Inga keppir við 25 manns í einu og er biðröð eftir að komast að.
Rétt í þessu náði hinn 15 ára Angunnguaq Pike að gera jafntefli við hana og brutust þá út mikil fagnaðarlæti. Áður hafði Inga klárað nokkrar skákir í fáum leikjum.
Skólastjórinn var að setjast við eitt taflborðið og verður spennandi að sjá hvernig sú viðureign fer. Hann tefldi víst mikið í Nuuk á sínum tíma og sýndist okkur í gær að hann væri nokkuð öflugur.
Myndavélarnar hafa verið hátt á lofti en tæknin er því miður að stríða okkur og enn hefur ekki tekist að koma myndum inn á bloggið. Við höldum samt áfram að reyna...
Kær kveðja frá fannferginu í Itto!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2011 | 22:49
Fyrsta skákmótið vel heppnað
Nú hafa hin fjögur fræknu verid i Ittoqqortoormiit i tæpa tvo daga. Hætt var við millilendingu í Kulusuk vegna veðurs og flogid beint hingað. Bærinn tók svo sannarlega vel a moti okkur, sólin heilsaði með brosi, rett eins og íbúarnir sem biðu okkar a þyrlupallinum. Vid fengum hjálp við að ferja töskurnar í gráu höllina, á heimasmíðuðum sleðum sem dregnir eru af snjósleðum. Ein taska lenti a hrakhólum og voru unnin þrekvirki vid ad drösla henni í gegnum snævi þakinn bæinn.
Veðrið var yndislegt í gær, en í nótt skall á stormur og í dag hefur verið blindbylur. Leiðangursmenn dúðuðu sig því upp, og örkuðu í skólann til að halda fyrsta skákmótið af mörgum. Um 40 krakkar mættu til að hita upp fyrir skákveisluna sem framundan er, og var keppt í fimm aldursflokkum.
Stelpurnar sýndu að þær eru engir eftirbátar strákanna, enda hafa þær eignast flotta fyrirmynd í Ingu. Á morgun býðst svo öllum sem vilja að spreyta sig á móti henni í fjöltefli og er spenningur kominn í mannskapinn -- ekki bara krakkana heldur líka Arne aðstoðarskólastjóra, sem vonast til að eiga roð í íslensku skákdrottninguna.
Sigurvegarar dagsins fengu verðlaunagripi og allir keppendur fengu boli og húfi frá bakhjörlunum okkar frábæru. Í sjónum í dag hafa leiðangursmenn líka hugsað mjög hlýtt til snillinganna hjá Cintamani sem útveguðu hlý föt til fararinnar!
Í gærkvöldi var okkur boðið í mat og brögðuðu flest okkar moskuxakjöt í fyrsta sinn. Á morgun förum við aftur í matarboð og þá fáum við -- jú, einmitt, moskuxakjöt.
Við hlökkum til framhaldsins og markmiðið er að vera skákgyðjunni til sóma. Auk fjölteflisins á morgun munum við heimsækja tólf ára krakkana í skólann í fyrramálið, og svo verða stór mót um helgina. Við ætlum okkur að halda í þessi bros, sem hér prýða hvert andlit!
Bloggar | Breytt 26.3.2012 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2011 | 09:50
Gráa höllin
Samkvæmt síðustu fréttum verða híbýli ferðalanga Gráa höllin í Ittoqqortoormiit. Það var bústaður þeirra Sverris Unnarssonar, Vestmannaeyingsins síkáta og Arnars Valgeirssonar um sl. páska.
Gráa höllin gekk einnig undir nafninu skákhöllin, er stutt frá bæði þyrlupalli og skóla og er lítil og sæt höll. Ekki væsir um gengið þar.
Veðrið er ekki upp á sitt besta nú á miðvikudagsmorgni og athuganir á flugi. Við krossum fingur og vonum það besta. Krakkarnir bíða spenntir eftir skákveislunni miklu sem stendur í heila viku.
Það er ekki ónýtt að vera þarna þegar sólin sest. Ekki alveg ónýtt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2011 | 19:49
leiðangursmenn komnir í gallana
Það hefur verið leiðindaveður þarna fyrir norðnorðwestan og flug ekki gengið samkvæmt áætlun en við erum bjartsýn og þegar að því kemur að skáktrúboðarnir standa á þyrlupallinum i Ittoqqortoormiit, þá getur restin varla klikkað.
Krakkarnir eru komnir í gírinn og 10 kassar með vinningum og páskaeggjum eiga að vera mættir á svæðið. Já, Eymunsson, Actavis, Bónus, Sölufélag Garðyrkjumanna og Ís-spor hafa heldur betur reddað því að hátíð verður í bæ.
http://www.cintamani.is/is/ kemur aldeilis veglega að ferðinni því leiðangursmenn mæta dúðaðir í dúnúlpum í frostið og húfur og annar varningur frá cintamani ratar á koll margra ungmenna bæjarins næstu dagana.
Ferðahugurinn ræður ríkjum og fundir - og ráðstefnur - verið haldnir til að undirbúa ferðina sem best.
Fram til sigurs!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2011 | 19:30
Afmælisbarn dagsins..
.. er Josef Napatoq. Hann er sextán ára. Josef er stórvinur Hróksins og hefur verið með í öllum mótum sem haldin hafa verið í Ittoqqortoormiit hingað til. Josef er fjórði í röð sjö systkina og þau eru svo miklir naglar að maður tekur ofan hatt. Hér er Josef í KA gallanum sínum. Getur ekki verið fínni!
Josef fór sem aðstoðarmaður stóra bróður síns, Paulusar, í hundasleðaferð með leiðangursmenn árið 2008. Á ísbjarnarslóðir yfir til Kap Tobin, þorps sem komið er í eyði en nokkrir veiðimenn hafast þar við auk þess sem fólk á þar sumarhús. Paulus spennti þó hundana fyrir sleðan og stýrði leiðangrinum, hoppaði annað slagið af á fullri ferð og lagaði flækjur hjá hundunum og hoppaði svo aftur upp á sleðan. Hann var líka með riffil með sér. Þetta væri allt mjög eðlilegt ef ekki er fyrir það að Paulus var sextán ára og blindur. Josef var að verða þrettán.
Bróðir þeirra hann Karl, stórvinur Hróksins auðvitað líka eins og öll systkinin, skrapp út á ísinn í fyrra í tvo eða þrjá sólarhringa og kom heim með tvo moskuxa eða sauðnaut. Kom heim daginn áður en hann varð sextán! Þeir Arnar og Sverrir skáktrúboðar fengu ilmandi sprækt moskuxakjöt í matarveislu á afmæli Karls. Reyndar rostung stuttu síðar og var hann allbúttaður. Moskuxinn þótti betri...
Nú um páskana fermist Pauline systir þeirra. Hún er kölluð Dorthe en við köllum hana Doddi því hún og lögmaðurinn síkáti, Þórður Sveinsson eða Doddi urðu mestu mátar hér um árið.
Yngst er Mia. Hún er sísyngjandi gleðigjafi og vill ekki tefla þegar aðrir horfa á. Bara svona heima þegar krakkar koma í heimsókn. En hún þiggur alveg páskaegg. Enda á hún það skilið. Mia er reyndar ekki blóðsystir krakkanna. Þau Jaerus og Nikoline, foreldrarnir, tóku hana bara að sér svona aukalega. Enda áttu þau ekki nema sex stykki, frekar spræka krakka og einn þeirra blindur!
Jamm, og rétt að geta þess að Paulus hinn blindi lærði mannganginn um páskana 2007. Hann sigraði svo á 60 barna- og unglingamóti ári síðar.
Við erum að tala um nagla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2011 | 18:22
Vinningarnir mættir!
Tíu kassar með vinningum á skákmótin í Scoresbysundi, skákvörum, hundrað Bónuspáskaeggjum og völdu grænmeti fóru í gær með Flugfélagi Íslands á leiðarenda. Flugfélagið hefur í gegn um tiðina verið afar sanngjarnt við Hrókinn og erfiðlega hefði gengið að setja upp á þriðja tug leiðangra án aðstoðar þess. Leiðangursfólk er komið í gírinn og pælt í því hvaða fatnað skal taka með, því þó veturinn hafi verið með mildasta móti á Grænlandi þá er aldrei að vita. Um tíu gráðu frost hefur verið að undanförnu sem þykir nú ekkert sérstakt!
Þess ber þó að geta að þegar góðir dagar, með um 0°c og sól, er ekkert minna en dásamlegt að rölta hring um bæinn, enda er hann byggður í hring, horfa yfir ísilagt breiðasta sund heims og hlusta á spangól sleðahundanna.
Já, það getur verið býsna fallegt í Ittoqqortoormiit.
Myndina tók Andri Thorstensen um páskana 2008
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2011 | 19:38
Frábær styrkur
Nú er allt að verða klárt vegna ferðar skáktrúboða Hróksins norðnorðwestur að Ittoqqortoormiit.
Allir vinningar verða sendir von bráðar að austurströnd Grænlands og það er töluvert magn, en Actavis og Eymundsson sjá til þess að öll börnin muni fá vinninga fyrir þátttöku í mótunum, auk Tele-Post á Grænlandi sem tekur þátt í verkefninu að þessu sinni. Bónus sér til þess að öll börnin í skólanum fái páskaegg, og þau eru jú á níunda tug. Ís-spor gefur bikara og verðlaunapeninga á fjögur mót, en tvö stórmót verða haldin fyrir yngri kynslóðina og sett verða upp sér mót fyrir þá eldri. Auk þess passar Sölufélag garðyrkjumanna upp á að ferðalangar stundi hollustuna, sem er glæsilegt, því vörurnar sem fást í kaupfélaginu komu með síðasta skipi. Það kom í ágúst!
Auglýsingar vegna skákvikunnar miklu hanga nú um allan bæ, svo krakkarnir séu með það á hreinu hvenær fjörið er í gangi. Aldursflokkamót, fjöltefli auk fyrrnefndra fjögurra móta verða haldin auk massívrar kennslu undir handleiðslu Ingibjargar Eddu.
Ferðalangar vona, svona í aðra röndina þó spennufíklar séu, að ísbirnirnir átta sem dvalið hafa við gaddfreðna fjöru þorpsins, fari nú að drífa sig í burtu. þeir treysta líka á að hundarnir, sem eru þarna í hundraðatali, passi upp á að allt verði í lagi.
Hrókurinn þakkar stuðninginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2011 | 17:53
Kynning og keppni
Skáktrúboðarnir sem fara á vegum Hróksins þurfa að taka úr sér hrollinn heldur betur því ekki náðu þeir stórkostlegum árangri á léttu móti á vegum Skákakademíu Reykjavíkur í gærkvöldi, miðvikudagskvöld.
En þetta var skemmtileg stund og þau efnilegustu af yngri kynslóðinni öttu kappi gegn reynsluboltum. Eftirfarandi grein er skrifuð af Stefáni Bergssyni, framkvæmdastjóra Skákakademíunnar og birtist hún bæði á www.skak.blog.is sem og http://www.skakakademia.is/forsida/
Það var fjölskrúðugur hópur skákmanna- og kvenna sem lagði leið sína í Skákakademíuna í kvöld. Ungir og efnilegir krakkar í þjálfun hjá Akademíunni, þrír forsetar og framkvæmdastjóri, Grænlandsfarar og skákdrottningar svo sitthvað sé nefnt.
Eftir fáeinar vikur, á afmælisdegi Gary Kasparovs 13. apríl, fer fjögurra manna fríður hópur í vikuferð til Grænlands; Ittoqqortoormiit við Scorebysund, eitt allra afskekktasta þorp í heimi. Um 1000 kílómetrar skilja að hið tæplega 500 manna þorp og bæinn Kulusuk. Hrókurinn fór í fyrsta sinn á þennan stað árið 2007, og er þetta fimmta ferðin.
Tilefni ferðarinnar er það sama og áður; kynna og kenna skáklistina fyrir börnin í þorpinu. Til að leiða það verkefni hefur skákdrottningin Inga Birgisdóttir verið fengin til starfans. Ásamt henni verður Arnar Valgeirsson Vinjarforingi um borð, blaðakonan Hrund Þórsdóttir og hirðljósmyndari Hróksins Tim Vollmer. Lífið í Ittoqqortoormiit er fábreytt. Heimsóknir Hróksins eru ávallt hátíð í bæ og börnin fagna sendiherrum skáklistarinnar eins og sönnum hetjum, sem þeir eru.
Ferðin var vel kynnt í kvöld, svipmyndir frá fyrri ferðum sýndar og Arnar fararstjóri hélt tölu um ferðina fyrir viðstadda. Hrókurinn nýtur stuðnings nokkurra myndarlegra bakhjarla; Sveitarfélagið Sermersooq komune á Grænlandi veitti myndarlegan fjárstyrk, Eymundsson, Actavis, Bónus og Ísspor sjá svo um að gleðja krakkana með ýmis konar skemmtilegum vinningum og gjöfum.
Að lokinni kynningu á ferðinni var slegið upp léttri hraðskákmintu. Gunnar Björnsson var stóryrtur fyrir mótið; ég ætla að rústa þessu móti." Gunnar er traustur maður, stendur við orð sín; sex af sex til forsetans! Honum næstur kom Stefán Már Pétursson faðir Vignis Vatnars og í þriðja sæti kom forseti Hróksins Hrafn Jökulsson.
Úrslit:
Rk. | Name | Pts. | TB1 |
1 | Björnsson Gunnar | 6 | 20,5 |
2 | Pétursson Stefán Már | 4 | 23 |
3 | Jökulsson Hrafn | 4 | 21 |
4 | Stefánsson Vignir Vatnar | 3,5 | 22 |
5 | Jónsson Gauti Páll | 3,5 | 18,5 |
6 | Þorsteinsson Leifur | 3 | 22 |
7 | Bergsson Stefán | 3 | 19,5 |
8 | Friðriksson Rafnar | 3 | 17,5 |
9 | Ragnarsson Heimir Páll | 3 | 15,5 |
10 | Birgisdóttir Inga | 3 | 15 |
11 | Magnúsdóttir Veronika Steinunn | 2,5 | 14 |
12 | Valgeirsson Arnar | 2 | 14 |
13 | Vollmer Tim | 1,5 | 14,5 |
14 | Þórsdóttir Hrund | 0 | 15 |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2011 | 21:20
Ævintýri í uppsiglingu!
Þann 13.apríl næstkomandi mun ég, ein kulvísasta og matvandasta manneskja sem ég "þekki", halda í vikuferð til Grænlands ...og get ekki beðið!
Ég hlakka til að kjamsa á rostungakjöti og láta rassinn á mér frjósa af, enda held ég að þetta verði sannkallað ævintýri! Ég er sem sagt blaðamaður og er svo ljónheppin að fá að ferðast með Hróknum til Ittoqqortoormiit til þess að kynna mér þetta merkilega verkefni Hróksmanna og auðvitað lífið í þessu afskekktasta þorpi á Norðurlöndunum (og þótt víðar væri leitað)!
Minn undirbúningur fyrir ferðina felst aðallega í að útvega birtingarrými fyrir greinarnar sem ég kem með heim úr ferðinni (tékk), hlakka til (tékk) og rifja upp mannganginn (í vinnslu, hahaha) ;) Svo útvegaði ég nokkur púsl frá gæðakonunum hjá Puzzled by Iceland enda er markmiðið að við komum færandi hendi út og púslin finnst mér rammíslensk og flott.
Við lopapeysan erum tilbúnar og nú er bara að telja niður..... eeiiinn, tveeeiiir, þríííír ... hætt'að telja, þett'er ÉG! *
Með tilhlökkunarkveðjum,
Hrund Þórsdóttir
* Þarna vottar fyrir galsa hjá mér, vonandi átta einhverjir sig á tilvitnuninni :P :D
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.3.2011 | 22:16
Páskaferð í undirbúningi
Undirbúningur ferðar til Ittoqqortoormitt - Scoresbysund - í fullum gangi og gengur vel. Fjórir trúboðar skákarinnar fara á vegum Hróksins að þessu sinni og stefna á magnaða ferð á magnaðan stað þar sem ísbirnirnir leika sér á ísilögðu fjöruborðinu.
Krakkarnir bíða komu sendiboðanna og ætla að tefla sem aldrei fyrr í páskafríinu sínu.
Ekki nóg með að stefnt sé á að ferðin verði sem glæsilegust því henni verða gerð góð skil, hér á hinum góða granna sem og í myndskreyttum greinum flottustu tímaritanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Spurt er
Tenglar
Grænlandsvinir
- Kalak Vinafélag Íslands og Grænlands
- Flugfélag Íslands Taktu flugið
- Penninn Styður starf Hróksins og félaga á Grænlandi!
- Íslenskt grænmeti Styður starf Hróksins og félaga á Grænlandi
- Henson Laaangflottastur!
- Bónus
- Cintamani Flottar flíkur í fimbulkulda
- Sögur útgáfa
- Actavis Hagur í heilsu
- Ísspor Verðlaunagripir
- Atlantsolía
- Fjallið Hvíta
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar