Færsluflokkur: Bloggar
29.9.2010 | 21:55
Forsetinn og ferðalög á dagskrá
Það var mikið um að vera hjá krökkunum í kvöld. Haraldur Davíðsson skellti kjötsúpu fyrir allt gengið og rúmlega það því það voru gestir. Fær hann þakkir sem og Embla Dís sem lagaði dýrindis kvöldverð á mánudaginn.
Teknar voru myndir - sem birtast síðar - af liðinu með buff á höfði sem Actavis gaf krökkunum, auk þess að styrkja Kalak til að gera eitthvað skemmtilegt með þeim, og svo bárust þeim gjafir frá Flugfélagi Íslands, bolir, húfur o.fl. en Flugfélagið hefur komið vel til móts við Grænlandsverkefni Hróksins og komu sundkrakkanna undanfarin ár og gert þetta allt saman kleift.
Teflt var á öllum þremur skákborðum sem á gistiheimilinu eru fram eftir kvöldi og á morgun er heimsókn á Bessastaði og á föstudaginn verður farið í hressandi ferðalag um hinn gullna hring. Það er ekki oft sem hægt er að fara í rútuferðalag þegar maður býr í landi þar sem engir vegir eru fyrir utan litla bæinn manns.
En skólalífið heldur áfram, með samvinnu íslenskra og grænlenskra barna, og tilheyrandi sundferðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2010 | 01:27
Helgin
Helgin var viðburðarrík hjá krökkunum. Þau fóru í húsdýragarðinn í boði ÍTR og sáu fullt af dýrum sem þau aldrei höfðu séð. Sum fengu að fara á hestbak sem var algjörlega ný upplifun. Fyrir þau sem ekki fóru á bak var líka algjörlega ný upplifun að sjá hesta!
Svo fóru þau í Smáralindina og fríkuðu aðeins út þar, enda stærra en kaupfélagið í Kulusuk eða Isortoq. Og í bíó í boði þeirra hjá Senu sem hafa árlega verið svo vinsamlega að bjóða hópnum í bíó.
Einnig fengu þau tvisvar passlega hollan skyndimat á veitingastöðum svo gleðin var hreinræktuð og algjör. Myndir síðar en á morgun hefst alvaran aftur, sem reyndar er ekkert nema stuð því þá er sund bæði fyrir og eftir hádegi og þau hitta vini sína í skólanum.
mynd: Lars Peter Stirling
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2010 | 18:13
að læra meira í dag en í gær
Eftir ríflega tuttugu ferðir Hróksins til austurstrandar Grænlands og skákkennslu í öllum byggðum þar undanfarin ár, þar sem gefin hafa verið hátt í þúsund skáksett, kunna allir krakkar mannganginn og sum eru orðin býsna fær í skáklistinni. Löberen -biskupinn - í Tasiilaq er virkasta félagið af þeim þremur sem stofnuð hafa verið þarna westurfrá og heldur reglulega mót.
Krakkarnir eru æstir í að tefla og í skólanum skora þau á innfædda í gríð og erg og tefla sín á milli, þar eða heima á gistiheimilinu í Kópavogi.
Tengslin sem íslensku og krakkarnir ná sín á milli í skólanum eru mikil og góð og mikil vinátta enda gaman að kynnast mismunandi heimum. Þegar kveðjustund hefur runnið upp í fyrri ferðum hafa mörg tárin fallið. Heimsóknir barnanna frá litlu og einangruðu þorpa austurstrandar Grænlands eru fastur liður í skipulagi skólayfirvalda í Kópavogi sem hafa staðið sig gríðarlega vel í þessu magnaða verkefni.
myndir: Lars Peter Stirling
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2010 | 18:55
Fjörið framundan
mynd: Lars Peter Stirling
Eftir að börn og fararstjórar höfðu komið sér fyrir í Kópavoginum var lagt í vísindaferð. Hér má sjá íslenska krosskönguló og grænlenska fingur.
Helgin verður mögnuð hjá krökkunum. Þau hjá ÍTR voru svo indæl að bjóða hópnum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn en dýralífið á austurströnd Grænlands er ólíkt því hér á landi. Hestar, kýr og kindur sjást ekki, en hugsanlega hreindýr þarna nyrst og auðvitað eru selir út um allt! Skúli Pálsson, gjaldkeri Kalak, lóðsar hópinn um garðinn.
Sena hefur árlega boðið krökkunum í bíó og á sunnudag mun sprækir krakkar sjá Karate kid í Smárabíói. Verða væntanlega ekki minna sprækir eftir það. Grænlandsfararnir Embla Dís og Róbert Lagerman, tvöfaldur Grænlandsmeistari í skák, ætla að læra karate með krökkunum.
Actavis veitti Kalak styrk til að gera eitthvað skemmtilegt með þessum úberhressa hóp og kemur það sér afskaplega vel þar sem ekki eru digrir sjóðir. Actavis, ásamt fleiri fyrirtækjum, sá til þess að allir þátttakendur í skákferð Hróksins til Scoresbysunds, fengu veglega vinninga um sl. páska.
Bendum á viðtal við Skúla og umfjöllun um komu barnanna í Fréttablaðinu þriðjudaginn 21. september:
http://vefblod.visir.is/index.php?s=4411&p=99568
http://vefblod.visir.is/index.php?s=4411&p=99567
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2010 | 17:44
Meistari John
Hann John er einhver virkasti skákmaður í Ittoqqortoormitt, tæplega fimm hundruð manna bæ við Scoresbysund. Hann er ætíð kátur og finnst gott að búa í Kópavogi, þó tímabundið sé, og best að vera í Salalaug.
Hér er hann ásamt vini sínum Daníel með bók Óttars Norðfjörð, um skákir föður síns Sverris Norðfjörð, sl. páskadag þar sem hann heilsaði upp á sendifulltrúa Hróksins í heimabæ sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2010 | 17:14
það jafnast ekkert á við bað...
mynd: Lars Peter Stirling
Þau eru eldhress börnin frá: Kulusuk, Sermeligaq, Kuumiut, Tinith-Tiqilaq, Isortoq og Ittoqqortoormiit þegar þau komast í Salalaugina. Fæst hafa farið í sund áður, en nokkur fengið smá tilsögn í vötnum þegar ísa leysir!
Þau hafa reyndar fæst farið í flugvél áður, eða bíó, eða séð hesta og kindur og hvað þá eitthvað líkt Kringlunni og Smáralind. En þetta allt, og meira til, er á dagskránni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2010 | 17:06
Austurgrænlensku sundkrakkarnir mættir
mynd: Lars Peter Stirling
Haustið 2006 buðu Hrókurinn og Kalak - vinafélag Íslands og Grænlands - börnum á ellefta ári frá litlu þorpum Austur-Grænlands að koma til Íslands til að læra að synda. Þótti ótækt að börnin sem lifa þarna við ströndina í fiskiþorpunum kynnu það ekki, enda lífsspursmál. Aðeins ein sundlaug var þá á Grænlandi og það í Nuuk, höfuðstaðnum á vesturströndinni. Þess má geta að félagar í skákfélagi Háskólans í Reykjavík söfnuðu hálfri milljón í verkefnið og munaði um minna.
Lars Peter Stirling, skólastjóri í Kulusuk hefur haldið utan um verkefnið á Grænlandi og nú eru krakkarnir að koma í fimmta sinn. Kalak sér um komu barnanna sem styrkt er af Alþingi og Kópavogsbæ, þar sem börnin búa, stunda skóla með íslenskum jafnöldrum og læra að synda, bæði á morgnana og aftur eftir hádegi. Flugfélag Íslands hefur styrkt þetta ævintýri frá upphafi.
Börnin stunda sundnámið í Salalaug en almennt nám við Hörðuvalla- og Smáraskóla þar sem ótrúlega vel gengur að kynnast íslensku krökkunum, þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og menningu.
Nú hefur Sermersooq kommúna, sem nær frá Nuuk og yfir meginpart austurstrandarinnar einnig, og er u.þ.b. sex sinnum stærri en Ísland, komið að þessu með fjármagni svo vonandi verður engin breyting á komu þessara eldhressu krakka til Íslands næstu árin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2010 | 23:22
Napatoq
Hér til hægri er Josef Napatoq, hinn góði vinur okkar og sonur Jaerus og Nicolinu sem buðu okkur í snjósleðaferð, sauðnaut og rostung. Þau eiga sex börn í skákinni, þau Paulus sem er í Danmörku eins og er, Karl, Emilíu, Josef, Leu og Dorte eða Dodda.... svo tóku þau að sér gleðigjafann Míu. Josef skartaði þessum glæsilega KA galla við mikla hrifningu mína en þegar Sverrir sá ánægjusvipinn þá ákvað hann að koma með haug af ÍBV göllum á krakkana næst. Hann ætlar nefnilega með næst og er strax farinn að plana ferðina. Allavega í huganum.
Josef á afmæli á morgun, föstudaginn 9. apríl og verður 15 ára. Hann fékk líka afmælisgjöf þegar við fórum og varð glaður en ótrúlega svekktur yfir því að komast ekki á þyrlupallinn að kveðja því skólinn er byrjaður. Það stoppaði þó ekki alla því nokkur ungmenni trilluðu upp á hólinn í ófæru til að veifa bæbæ.
Við þökkum þeim sem gáfu vinninga á mótin sem svo sannarlega fóru á góðan stað og glöddu ung hjörtu. Eymundsson, Actavis, Sandholt, Arionbanki, Bónus og Jói gullsmiður í Eyjum; hjartans þakkir. Flugfélag Íslands hefur reynst Hróknum afar vel undanfarin ár og bestu þakkir til allra þar.
Sverrir hoppaði beint upp í vél til Eyja er lent var í Reykjavík. Hann er væntanlega farinn að græja næstu ferð. Þegar yfir 60 krakkar mæta í skólann í páskafríinu sínu (frá skólanum...) til þess að tefla, og um 80 eru í skólanum yfirleitt, þá er verið að gera eitthvað rétt. Og verður sko áframhaldið.
Arnar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2010 | 14:23
vedurtepptir piltarnir
jæja, vedurtepptir í snjókomunni. en til hvers ad kvarta eftir spikfeitan rostung i hádegismat og med svona útsýni út um eldhúsgluggan?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2010 | 14:19
Aqqalu Brönlund tók páskamót númer tvö
Við piltarnir tókum því rólega um morguninn en kíktum down town upp úr hádegi bara til að komast að því að búðin var lokuð frá hádegi til tvö. Litum svo við hjá Martin og Karinu í Nanu travel, sem eru miklir öðlingar. Karina lætur sig félagsmálin miklu varða og er farin að hugsa um leiðir til að hjálpa Hróknum við fjármögnun ferða næstu ára, því hún vill að þetta verði jafn sjálfgefið og páskarnir sjálfir. Við fengum aðeins lánaðan hann Charlie, helmassaðan sleðahund sem var svo sterkur að það var sko ekki nóg að hafa hundaól á hann heldur almennilega keðju. Trilluðum með hann aðeins upp í fjallsrætur.
En skólinn var hafinn eftir páskafrí og fimmtíu og fjorir skráðu sig til leiks í mótið sem hófst um hálf fjögur. Það er ekki slæmt miðað við að nemendur eru tæplega 80. Tefldar voru sjö umferðir með fimm mínútna umhugsunartíma og allt gekk eins og í sögu. Krakkarnir kunna orðið á þetta, tilkynna úrslit og eru tilbúin við skjávarpann þegar röðun næstu umferðar er og fljót að koma sér fyrir við merkt borðin.Lengst af leit út fyrir harða baráttu þeirra Aqqalu Brönlund og hennar Sikkerninnguaq Lorentzen, sem er efnilegasta stúlkan. Hún hinsvegar tapaði tveimur síðustu, fyrir þeim Aqqalu og Leo Brönlund, eftir að hafa verið komin með fimm af fimm. Lenti hún þar með í fimmta sæti en fékk þó sérstök verðlaun fyrir að vera efsta stúlkan. Sikkerninnguaq hefur þó oftar en ekki komist á pall síðan hún lærði mannganginn um páskana 2007.
Aqqalu vann allar, Seth Pike kom á óvart og krækti í silfrið og Leo Brönlund varð þriðji en þeir voru með sex. Dines Arqe, Sikkerninnguaq, Julian Anike, Peter Danielsen, Klaus Simonsen, hinn sterklega byggði Hans Henrik Arqe aðstöðarlögga bæjarins, Olena Madsen og Abel Simonsen voru öll með fimm. Allir þátttakendur voru kallaðir upp og fengu glæsilega vinninga, voru myndaðir í bak og fyrir og dregnir voru út tíu happadrættisvinningar. Þátttakendur voru ofsakátir í mótslok en voru súrir yfir að sendinefndin væri á förum. En nú þarf að standa við orðin því við lofuðum að mæta að ári.
Stemningin hefur verið frábær, yngri krakkarnir kíkja við hjá okkur annað veifið og eru komnir klukkutíma fyrir mót að hjálpa til við að bera varninginn í skólann. Í byrjun kölluðu krakkarnir skak, skak þegar við nálguðumst en svo heyrðist alltaf klokken tre því skáklífið hefur farið fram í skólanum um hátíðarnar frá þrjú og staðið yfir í ca fjóra tíma. Knud Eliassen hefur verið mættur manna fyrstur og ekki farið fyrr en allt er klárt í páskafríinu sínu, en hann var orðinn lúinn eftir gærdaginn enda verið að kenna frá 8 um morguninn og rétt náði heim í síðbúinn kvöldmat. Fólkið hér er frábært og þetta eru naglar. Lífið er ekkert létt alltaf, veturinn langur og virkilega harður og hér er ekkert hlaupið í Byko eða Húsasmiðjuna þegar eitthvað klikkar. Ekki hafa allir atvinnu og fólksfækkun hefur verið þónokkur undanfarin ár, farið úr 520 í 460 á fjórum árum. En í okkar augum eru þetta snillingar, ekki síst krakkarnir sem eru langflottastir. Heilbrigðir og bara langflottastir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Spurt er
Tenglar
Grænlandsvinir
- Kalak Vinafélag Íslands og Grænlands
- Flugfélag Íslands Taktu flugið
- Penninn Styður starf Hróksins og félaga á Grænlandi!
- Íslenskt grænmeti Styður starf Hróksins og félaga á Grænlandi
- Henson Laaangflottastur!
- Bónus
- Cintamani Flottar flíkur í fimbulkulda
- Sögur útgáfa
- Actavis Hagur í heilsu
- Ísspor Verðlaunagripir
- Atlantsolía
- Fjallið Hvíta
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar