Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Litið um öxl - og fram á veginn

Ferð hinnar fjögurra manna sendinefndar Hróksins til Ittoqqortoormiit tókst með afburðum vel. Ekki verður annað séð en að þetta nyrsta byggða ból austurstrandar Grænlands sé orðið magnaðasti skákbær norðurheimskautsins.

Í það minnsta eru ekki mörg skákfélög starfandi mikið norðar en þarna við Scoresbysundið, en Tårnet (Hrókurinn), fagnar einmitt eins árs afmæli sínu um þessar mundir og stöndum við í þeirri trú að virk starfsemi verði hjá félaginu næstu mánuði og ár. Peter von Staffeldt, skólastjóri grunnskólans á staðnum og kona hans hún Ulla, helstu hjálparhellur Hróksmanna í ferð þessari, voru heilluð af þátttöku barnanna - sem reyndar komin voru í páskafrí – og í skólanum verður teflt á næstunni, það er deginum ljósara.

Ekki nóg með það, þá eignaðist skákfélagið Hrókurinn heiðursfélaga númer 12, sjálfan formanninn í Tårnet, Knud Eliassen, sem hélt öruggum höndum um þrjú skákmót í samvinnu við Hróksmenn og var nánast þrjá daga í páskafríinu sínu í skólanum, þar sem hann einmitt kennir.

knud eliassen Knud var heiðraður sérstaklega og tekinn í hóp heiðursfélaga, þar sem fyrir eru m.a: Össur Skarphéðinsson, Jóhannes í Bónus, Patty Smith, tónlistarhetja, Árni Höskuldsson, gullsmiður og fleira gott fólk, ekki síst hann Paulus Napatoq, heiðursfélagi númer ellefu. Titilinn hlaut hann í fyrra þegar hann, þá fimmtán ára og blindur, lærði mannganginn á örskömmum tíma og byrjaði að tefla sem ekkert væri. 

c_documents_and_settings_administrator_my_documents_ittoqqortoormiit_2008_gla_ur_sigurvegarin_a_60_manna_moti_kenntPaulus gerði sér lítið fyrir og varð annar í fyrsta mótinu, Glitnismótinu, tók þátt í því öðru, Húsasmiðjumótinu, en kom of seint og náði því ekki á pall. Hann hinsvegar stóð uppi sem sigurvegari, með fimm vinninga af fimm mögulegum, í fjölmennasta skákmóti sem haldið hefur verið á 70. breiddargráðu, Klæðningarmótinu. Klæðning ehf. styrkti ferð Hróksins fjárhagslega og ríflega sextíu manns tóku þátt í mótinu. 

snjór og sleðiVeðrið skartaði sínu fegursta þegar sendinefndin mætti á svæðið, nánast logn, sólin eitthvað að glenna sig og ellefu stiga frost. Vetrarhörkurnar hafa verið ógurlegar þennan veturinn og talað var um að ekki hafi snjóað svo mikið og svo lengi síðan 1971. Fólk hefur verið fast innandyra svo dögum skiptir í vetur og húsin bókstaflega farið á bólakaf.

Ferðalangar upplifðu eitthvað nýtt, dag eftir dag: Þyrluferðirnar, vélsleðaferð með veltu, allur þessi ótrúlegi snjór og matarveislurnar, ekki síst hjá skólastjórahjónunum þar sem boðið var upp á ísbjarnarkjöt, sel, náhvalshúð og spik, þurrkaða loðnu og moskuxa. Að fá að upplifa þetta magnaða þorp þar sem styttra er til Íslands en í næsta bæ og það arnar, þórður og joseffrábæra fólk sem þarna býr.

Hundasleðaferðin á ísbjarnaslóðir, með Paulusi hinum blinda og bróður hans Josef yfir í veiðimannaþorpið Kap Tobin er eitthvað sem aldrei gleymist. Þegar Paulus birtist með riffilinn á bakinu varð ferðalöngum á orði að þeir væru ekki lunknir að fara með riffil. Paulus sagði það í góðu lagi því hann kynni alveg á hann. Og hefur reyndar þurft að nota, þegar hann einn á ferð með hundunum sínum mætti ísbirni langt frá mannabyggð.

En að næstum fjórðungur íbúa bæjarins hafi komið og fengið að kynnast skákgyðjunni og þar af ríflega helmingur barnanna í hinu einangraða Ittoqqortoormiit er langstærsta upplifunin og gefur svo sannarlega fögur fyrirheit. 

hundarnir í forgrunni, séð yfir bæinn og ísi lagt scoresbysundiðVeðurfarið var glimrandi fínt í heila viku, stundum svolítið kallt, upp í mínus 20, og þegar Hróksmenn bjuggust til brottfarar skall á með þvílíkum hríðarbyl að ekki var hundi út sigandi. Sem kannski er ekki rétt því þeir tugir ef ekki hundruðir hunda sem þarna eru, koma ekki inn fyrir húsdyr mestan hluta ævinnar, eru úti hvernig sem viðrar, allan ársins hring.

Þannig að heimferðin tafðist aðeins. 

 

Þetta var tólfta ferð Hróksins til Grænlands og hefur austurströndinni verið sérstaklega sinnt, þar sem þar eru félagsleg vandamál meiri en annarsstaðar og fátækt veruleg víða. Lítið er um að vera fyrir börnin en þau hafa svo sannarlega tekið skákinni fagnandi og nú eru tvö skákfélög starfandi þar, Löberen eða biskupinn í Tasiilaq á Ammassaliqsvæðinu og Tårnet í Ittoqqortoormiit.

Þegar Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, fékk þá flugu í haus að færa skákina til Grænlands, þar sem hún hafði legið í dvala í mörg hundruð ár, hefur varla nokkrum dottið í hug það starf sem farið hefur þarna fram undanfarin ár. Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands hefur svo komið að Grænlandsferðunum hin síðari ár og samskipti landanna eflst til mikilla muna, m.a. hafa hátt í fimmtíu börn, á tólfta ári,  komið í tveimur ferðum til Íslands, gengið í skóla í Kópavogi í rúmlega viku og lært að synda. 

 

Einstaklingar og fyrirtæki hafa stutt dyggilega við starf Hróksins undanfarin ár. Klæðning styrkti ferð þessa og Glitnir  Borgarleikhúsið Henson og Húsasmiðjan sáu til þess að allir þátttakendur fengju vinninga auk þess sem Góa  gaf grunnskólabörnunum páskaegg, en ríflega hundrað stykki voru með í för.Flugfélag Íslands hefur verið Hróknum ótrúleg hjálparhella frá upphafi.

Sendinefndina skipuðu að þessu sinni þeir: Róbert Harðarsson, Þórður Sveinsson, Arnar Valgeirsson og Andri Thorstensen sem tók ekki bara þessar myndir hér, heldur á þriðja þúsund til viðbótar.... 

Fram til sigurs.

AV

 Endilega klikkaðu á myndirnar og sjáðu þær stórar.

litadýrð í snjónum Þó hvítt væri yfir öllu þá vantaði ekki litadýrðina á þessum óviðjafnanlega stað. Fegurðin er algjörlega engu lík.

 

 

róbert í fjöltefli við 50 mannsRóbert Harðarson, Fide meistari, tefldi fjöltefli við fimmtíu manns á sunnudegi. Sendinefnd Hróksins fékk skólann til afnota í páskafríi nemenda (og kennara) og ekki vantaði heimsóknargesti.

 

     

alltaf eitthvað spennandi að gerast

  Börnin voru svo sannarlega glöð með Glitni á Glitnismótinu, klædd í boli og í rífandi stuði.

 


Mikill fögnuður

Sendinefnd Hróksins hér í Ittoqqortoormiit hefur hvergi slegið slöku við. Á mánudaginn voru haldin tvö skákmót eins og áður hefur verið greint frá. Í fyrradag var ekki heldur setið auðum höndum og voru leiðangursmenn með opið hús í grunnskólanum frá klukkan tvö. Klukkan þrjú tefldi Róbert Harðarson með bundið fyrir augu við Paulus Napatoq sem náði framan af að verjast sóknum Róberts. Að lokum fór þó svo að Paulus tapaði skákinni en það var líka eina skákin sem hann tapaði þennan dag; klukkan fimm var haldið fjölsótt skákmót þar sem hann stóð uppi sem sigurvegari.

Þetta skákmót var haldið í skólanum eins og fyrri mót og var veglega styrkt af Klæðningu, sem og Glitni, Borgarleikhúsinu, Góu og Húsasmiðjunni sem gáfu ýmsa vinninga. Mótið var ætlað öllum aldurshópum og mættu ríflega 100 manns en þátttakendur voru hátt í 70 talsins. Knud Eliassen, formaður skákfélagsins í Ittoqqortoormiit – sem heitir einmitt Tårnet eða Hrókurinn – aðstoðaði við alla framkvæmd mótsins en hann hefur verið ómetanlegur í skákstarfi Hróksins hér í þorpinu.

Eins og fyrr segir varð Paulus Napatoq efstur á mótinu en það má teljast góður árangur hjá þessum blinda pilti. Í verðlaun fékk hann bikar, verðlaunapening, skáktölvu og páskaegg frá Góu. Í öðru sæti varð Lars Simonsen og í því þriðja Aqqalu Brønlund. Hlutu þeir hvor um sig verðlaunapening, skáksett og páskaegg. Af kvenkyns þátttakendum fékk Sikkerninnguaq Lorentzen flesta vinninga en þess má geta að hún varð í öðru sæti á barnaskákmótinu sem haldið var í fyrradag. Í verðlaun fékk hún páskaegg og eðalskáksett. Þegar úrslit voru tilkynnt fögnuðu allir viðstaddir gríðarlega. Og að sama skapi var vel fagnað þegar Knud Eliassen var vígður til tólfta heiðursfélaga Hróksins.

Mikill fögnuður var raunar mjög einkennandi fyrir mótið og mátti sjá gleðina skína úr augum keppenda og þá sérstaklega barnanna en þau voru í talsverðum meirihluta. Þau þekkja orðið alla leiðangursmenn með nafni og sjái þau einhvern þeirra á vappi um þorpið koma þau umsvifalaust aðvífandi og heilsa honum með handabandi. Eitt þykir þeim mjög fyndið en það er að nafn Arnars leiðangursstjóra er skrifað alveg eins og orðið kona á grænlensku, það er arnar.

Gaman að því. Og gott ef það er ekki bara gaman líka að vera veðurtepptur hér í Ittoqqortoormiit en leiðangursmenn komust ekki heim í fyrradag eins og upphaflega var ætlunin. Þá var slæmt veður framan af og seint um kvöldið skall á ofsarok með snjókomu og skafrenningi. En leiðangursmenn létu ekkert stöðva sig og um morguninn héldu þeir á fund sveitarstjórnar sem þeir höfðu verið boðaðir á klukkan tíu. Í ráðhúsinu komust þeir að því að fundurinn hefði fallið niður vegna veðursins. Otto Christensen, fjármálastjóri sveitarfélagsins, var þó í ráðhúsinu og ræddi við leiðangursmenn í nokkra stund. Tók hann við forláta skáksetti fyrir hönd sveitarfélagsins en leysti gestina einnig út með góðum gjöfum.

Má segja að viðræðurnar við Otto hafi verið lokahnykkurinn í störfum leiðangursmanna að þessu sinni en síðar meir mun Hrókurinn vitaskuld senda hingað sendinefnd að nýju. Nú er þess hins vegar beðið að unnt verði að fljúga heim en það er ekki hægt í dag enda leiðindaveður.

Hlýjar kveðjur úr hríðarbyl við Scoresbysund,

Þórður


Skákmót á skákmót ofan – Illar veðurhorfur

_MG_6090Í dag hefur sendisveit Hróksins hér í Ittoqqortoormiit hvergi látið deigan síga fremur en fyrri daginn. Klukkan tvö í dag var haldið skákmót í grunnskóla þorpsins – veglega styrkt af Glitni – fyrir börn sextán ára og yngri og mættu hátt í fimmtíu.

 Asser Sanimuinaq varð hlutskarpastur en í öðru sæti varð Sikkerninnguaq Lorentzen sem um leið var efst stúlkna. Í þriðja sæti varð Paulus Napatoq – blindi pilturinn sem ekur um allt á hundasleða eins og ekkert sé. Og í fjórða sæti varð Julian Anike.

Öll hlutu þau vegleg verðlaun og má þar nefna forláta bikar fyrir fyrsta sætið, verðlaunapeninga, skáktölvur fyrir fyrsta og annað sætið og páskaegg frá sælgætisgerðinni Góu. Fengu raunar allir þátttakendur páskaegg.


Að móti loknu buðu skólastjórahjónin, þau Peter og Ulla, leiðangursmönnum í mat. Á borðum var ísbjörn, selkjöt, náhvalsspik og náhvalshúð, þurrkuð loðna (amassa) og moskuxakjöt. Þetta var mikill herramannsmatur sem bráðnaði í munni.

Að loknum mat var spjallað við skólastjórahjónin yfir kaffibolla í dálitla stund en síðan urðu Grænlandsfarar að halda aftur upp í skóla. Komið var að öðru móti, að þessu sinni fyrir 12 ára og eldri sem styrkt var myndarlega af Húsasmiðjunni.

Alls mættu um fimmtíu manns. Arne Munk aðstoðarskólastjóri fór með sigur af hólmi en í öðru sæti varð Ikila Brønlund. Í þriðja sæti varð bróðir hans, Aqqalu. Hlutskörpust kvenna varð Ivi Lorentzen en hún er einmitt systir áðurnefndrar Sikkerninnguaq. Sem fyrr voru veitt vegleg verðlaun og má þar nefna páskaegg frá Góu, verðlaunapeninga og bikar fyrir fyrsta sætið, auk skákborðs áritaðs af sjálfum Garrí Kasparov.


Á morgun verður haldið enn eitt skákmótið – og gefst öllum aldurshópum kostur á að taka þátt í því. Fyrirhugað er að halda heim til Íslands degi síðar, það er á miðvikudag, en ekki er víst að það hafist.

Veðurspáin er víst ekki með betra móti fyrir miðvikudaginn en gert er ráð fyrir 20 metrum á sekúndu, snjókomu og skafrenningi. Miðað við allan snjóinn hér við Scoresbysund má ætla að verulega blint verði í slíku veðri en leiðangursmenn krossa bara fingur. Kannski gengur spáin ekki eftir en gangi hún eftir – nú, þá verður bara að bíða fram á laugardag.

Þá er búist við björtu veðri og brakandi frosti. Í slíku veðri er ekkert mál að fljúga. En ef allt klikkar þá er það nú kannski ekkert svo slæmt. Það er jú margt verra en að vera á Grænlandi.


Kærar kveðjur frá hjara veraldar,
Þórður


Glitnismót og Húsasmiðjumót

_MG_4781Meðan krónan er í frjálsu falli á Íslandi er ótrúlegur uppgangur i skákinni i Scoresbysundi, einsog sjá má á seinasta pistli.

Klukkan tvö í dag er Glitnismótið en Glitnir gefur fullt af fínum vinningum. Einnig fá öll börnin páskaegg frá Góu, væntanlega við mikinn fögnuð!

Í kvöld er mót fyrir 12 ára og eldri, Húsasmiðjumótið.

Væntanlega verður þetta langur og skemmtilegur dagur en í pásu milli mótanna býður skólastjórinn upp á grænlenskan hátíðarverð, med ýmsum framandi réttum.

Við bíðum spenntir...


Fjöltefli á ísbjarnaslóðum

 

godurgranniOpið hús var í grunnskólanum í Ittoqqortoormiit í dag, sunnudag, og mættu hátt í sjötíu manns. Gríðarlegur áhugi skein úr augum barnanna, og reyndar þeirra fullorðnu líka, og var þegar hafist handa við taflmennskuna.

Þegar allir voru orðnir heitir tefldi skákmeistari ferðarinnar, Róbert Harðarson, fjöltefli við rúmlega 50 manns, mest börn og unglinga en þónokkra fullorðna einnig.

Upphafsskákin var við skólastjóra grunnskólans og hjálparhellu Hróksmanna, Peter von Staffeldt, sem finnst mikið koma til starfs Hróksins á Grænlandi.


Peter gaf reyndar þegar hann var kominn í töluverð vandræði en flestir börðust fram í rauðan dauðann, nema þeir sem náðu jöfnu við meistarann með glæsilegri frammistöðu. Sú fyrsta var hún Gudrun litla, vinkona okkar frá í fyrra, 7 ára gömul.

Alls náðu 8 jöfnu við Róbert, að vísu þrjú lítil börn en aðrir vegna flottrar frammistöðu. Þeirra á meðal var Paulus Napatoq, hinn sextán ára blindi snillingur sem mun tefla blindskák á morgun við Róbert.


Paulus fór með ferðalanga í 15 km og þriggja tíma hundasleðaferð í gær út á Kap Tobin, þar sem veiðimenn hafa bækistöð, í ótrúlega góðu veðri þar sem kuldinn reyndar beit nokkuð. Ísbirnir hafa nokkuð verið að gera fólki lífið leitt á þessari leið undanförnu en Paulus var með riffil með.

Þegar íslenskir skákmenn sögðust lítið kunna að fara með svoleiðis sagði hann það í lagi því hann kynni á riffilinn sjálfur! Sérstakur aðstoðarnaður í ferðinni var litli bróðir hans, Jósef sem er 12 ára.


Skákhátíðin hófst auðvitað með kennslu í skólanum tvo síðustu dagana fyrir páskafrí, en byrjaði með látum í dag og tvö mót verða haldin á morgun og eitt á þriðjudag. Kennsla var einnig í félagsheimili unglinganna á föstudeginum, Umimmak eða Moskuxanum, en skólastjórahjónin buðu einmitt upp á moskuxasteik strax fyrsta kvöld Hróksmanna í bænum.

Hafa þau boðið upp á grænlenskan hátíðarverð á morgun þar sem selur og loðna koma við sögu, ásamt ísbjarnarkjöti, svo tilhlökkunin er mikil.


Allur aðbúnaður er til mikillar fyrirmyndar, ferðalangar hafa yfir heilu húsi að ráða sem er reyndar yst í bænum, þar sem einn ísbjörn gekk um fyrir stuttu og bauð sér í heimsókn í bæinn. Hinir islensku ferdalangar treysta á að hundarnir, sem eru nánast um allan bæ, láti vita sé önnur heimsókn fyrirhuguð.


Formaður skákfélagsins Tårnet i Ittoqqortoormiit, Knud Eliassen, hefur verið öflugur við allt utanumhald og mun stjórna skákmótum á morgun og hinn. Þýðir hann yfir á grænlensku fyrir litlu börnin og er ómissandi við skákstarfið hér.


Skákin hefur gjörsamlega tekið yfir í bænum og allir eru með sælusvip.


Fram til sigurs!
Arnar.


Skákveisla í uppsiglingu

 

Börnin í grunnskólanum í Ittoqqortoormiit bíða spennt eftir að sunnudagurinn renni upp. Ekki bara af því að þau verða komin í páskafrí heldur líka af því að þá hefst skákhátíðin formlega en opið hús verður í skólanum frá klukkan 14. Massív kennsla verður, auk þess sem skákmeistarinn meðal ferðalanga (þó hinir þrír kynni sig sem sjení líka), Róbert Harðarson, ætlar að taka fjöltefli við alla sem láta sjá sig.

Farið var í gegnum grunnatriði skáklistarinnar í nokkrum bekkjum í gær og í dag verður því fram haldið, auk þess sem félagsmiðstöð ungmennanna hér, Umimaq eða moskuxinn, verður heimsótt, og riddarar og drottningar kynntar til sögunnar, auk hróksins auðvitað en skákfélagið á staðnum heitir einmitt Tårnet, eða Hrókurinn. Félagið var stofnað fyrir réttu ári síðan, og er ætlunin ad virkja þad enn frekar. Þó eru margir sem tefla heima hjá sér og börnin eru æst í að vera með. Margir krakkar, sem og fullorðnir, eignuðust sett í fyrra auk þess sem skilin voru eftir yfir tuttugu skáksett í skólanum.

_MG_4791Það hefur ekki verið svo mikill snjór í bænum síðan 1970, fólk þarf að byrja á að moka af þakinu til að gera svo göng að dyrunum. En allir eru glaðir því ferðalangar tóku sólina með sér á svæðið og heiðursfélagi Hróksins númer 11, hinn blindi Paulus Napatoq, ætlar að taka þátt í skákhátíðinni af fullum krafti.
Þess má geta að Þórður og Andri sýndu snilldartakta við innpökkun páskaeggja, þar sem aðeins sex egg af 140 brotnuðu í flutningunum. Enda fóðruð í dagblöð og búbbluplast. Páskaeggin eru gjöf frá sælgætisgerðinni Góu til barnanna í Ittoqqortoormiit og þeim verða gerð góð skil.


Fram til sigurs.
Arnar.


Óviðjafnanlegur staður

Ittoqqoortormiit við Scoresbysund er óviðjafnanlegur staður og skartar nú sínu fegursta undir bjartri heimskautasólinni. Við komum hingað í fyrradag eftir magnaða þyrluferð frá alþjóðaflugvellinum í Nerlerit Inaat (Constable Pynt). Vart kæmi á óvart ef sá flugvöllur væri einangraðasti og minnsti alþjóðaflugvöllur í víðri veröld. Strax og við lentum urðum við varir við ógurleg snjóþyngsli og þau voru engu minni í Ittoqqoortormiit.

_MG_4813 

Snjórinn er að minnsta kosti þriggja metra djúpur og skaflarnir allt upp í fimm/sex metra þykkir. Mörg húsanna eru vart sjáanleg fyrir snjó. Dagana áður en við komum hafði líka verið hið versta veður. Ekki sást á milli húsa og börnin voru föst heima eins og skólastjórahjónin, þau Peter og Ulla, greindu okkur frá í fyrrakvöld. Þá fórum við í matarboð á heimili þeirra og báru hjónin fram dýrindis krásir – grænlenskan lax og kjöt af sauðnauti.

Af þessu má sjá að við erum miklir aufúsugestir í þorpinu. Þau Arnar, Óli Kolbeinn og Íris vöktu auðsjáanlega mikla lukku hér í fyrra og allir vilja greiða götu okkar. Það fundum við í dag þegar við byrjuðum á skákkennslunni í grunnskólanum. Og á næstu dögum mun velvild þorpsbúa koma sér vel enda ætlum við okkur – auk skákkennslunnar – að standa fyrir þremur veglegum skákmótum og stóru fjöltefli þar sem börnin í grunnskólanum munu reyna að vinna Róbert Harðarson. Hann ætlar líka að tefla blindskák við Paulus – blindan pilt sem fer um allt á hundasleða sem alsjáandi væri og lætur sjónleysið ekki aftra sér frá taflmennsku.

Og ekkert mun aftra okkur frá því að halda hér glæsilega og vel heppnaða skákhátíð. Slíkur er áhuginn í þorpinu að annað er óhugsandi.

Með heimskautakveðju,
Þórður


Hrókurinn á 70. breiddargráðu!

Skákgleði á Grænlandi"Hér iðar allt af skáklífi. Krakkarnir eru himinlifandi og allir bæjarbúar hafa tekið okkur frábærlega," segir Róbert Harðarson, einn af leiðangursmönnum Hróksins í Ittoqqortoormit á Grænlandi.

Fjögurra manna vaskur hópur flaug frá Reykjavík á miðvikudag og  verður næstu vikuna á 70. gráðu norðlægrar breiddar að útbreiða fagnaðarerindi skáklistarinnar.

Skákkennslan byrjaði í dag, fimmtudag, í skólanum í þessu 500 manna samfélagi sem er nyrsta byggð á austurströnd Grænlands.

Um 120 börn eru í skólanum og þau  munu öll taka þátt í námskeiðum, fjölteflum og skákmótum á vegum Hróksmanna.

"Hér er 10 stiga frost núna og mesti snjór í manna minnum," segir Arnar Valgeirsson, leiðangursstjóri, sem hefur haft veg og vanda af skipulagningu leiðangursins. "Nú snýst allt um skák hérna og það mun bara aukast á næstu dögum!"


Á leið til Ittoqqortoormiit fyrir páska..

Þá er komið að því...

Þann 12. mars fer fjögurra manna hópur á vegum Hróksins til nyrsta byggða bóls Austurstrandar Grænlands, Scoresbysunds eða Ittoqqortoormit.

Í samvinnu við hið kornunga skákfélag á þessum ríflega 500 manna stað, Tårnet (Hrókurinn), verður skákkennsla í grunnskólanum á staðnum, auk þess sem í það minnsta þrjú skákmót verða haldin.

 selskinn til þerris Fyrir réttu ári síðan fór þriggja manna leiðangur þarna norðureftir og tókst ferðin í alla staði vonum framar. Börnin tóku hinu íslenska skákfólki opnum örmum, enda ekki um margt að vera í páskafríinu þar sem staðurinn er mjög einangraður, 800 km í næsta bæ sem er kulusuk og ívið styttra að fara til Íslands.

Peter von Staffeldt, skólastjóri grunnskólans, hefur lofað að hafa skólann opinn fyrir skáklistina þó börnin verði komin í páskafrí og þeir Knud Eliasen, formaður Tårnet og Jörgen Thomsen, stjórnarmaður og sérlegur aðstoðarmaður Hróksmanna, eru farnir að undirbúa komu ferðalanganna.

Gustav Brandt, félagsmálafulltrúi bæjarins ætlar að sjá til þess að mótin gangi vel fyrir sig, bæði í skólanum og hinu nýja íþróttahúsi bæjarins, þar sem leiðangursmenn vonast til þess að hægt verði að halda glæsilegt mót á norðlægum slóðum, fyrir bæjarbúa alla.

Paulus Napatoq lærir reglurnar hjá Jörgen Thomsen  Heiðursfélagi Hróksins númer ellefu, Paulus Napatoq, blindur fjórtán ára piltur, verður að sjálfsögðu heimsóttur, en hann lærði að tefla í fyrra. Drengurinn er algjör snillingur og fer sinna ferða á hundasleða á veturna en á hjóli á sumrin og lætur sjónleysi ekki aftra sér frá því að taka fullan þátt í lífinu í Ittoqqortoormiit.

Þetta er tólfta ferðin til Grænlands á vegum Hróksins, þar sem skákgyðjan er kynnt innfæddum og samstarf landanna styrkt. Fyrsta ferðin var fyrir fimm árum síðan og hefur Hrókurinn einbeitt sér að austurströndinni þar sem lífið er nokkru harðara fyrir innfædda auk þess sem félagsleg vandamál eru töluverð og atvinnuleysi umtalsvert.

Svona ferðir eru ekki mögulegar nema með hjálp góðs fólks og stuðnings fyrirtækja, en Klæðning ehf studdi ferðalanga glæsilega og Glitnir, Góa, Henson, Húsasmiðjan og Borgarleikhúsið sjá til þess að allir fái glæsilega vinninga, bikara og verðlaunapeninga. Má vænta ósvikinna brosa á litlum andlitum með páskaegg í hönd..

 

Leiðangursmenn að þessu sinni eru þeir Robert Lagerman, Þórður Sveinsson, Andri Thorstensen og Arnar Valgeirsson, en allir hafa þeir tekið þátt í Grænlandsverkefni Hróksins áður.


Leiðangursmenn

,,Við erum ein fjölskylda"
,,Við erum ein fjölskylda"

Fréttir af landnámi skákarinnar og starfi Hróksins og Kalak á Grænlandi.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband